Breyttur markaður í borginni

Uppbygging á F-reit á Hlíðarenda.
Uppbygging á F-reit á Hlíðarenda. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir íbúðamarkaðinn í höfuðborginni að ná jafnvægi eftir óeðlilega þenslu. Mikið framboð nýrra íbúða sé að koma á markaðinn.

Dagur setti málþing um uppbygginguna í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun. Slík málþing hafa farið fram áður, en borgarstjóri notar þá tækifærið til að gera grein fyrir uppbyggingunni.

Sagði Dagur áætlað að um 2.000 nýjar íbúðir komi á markaðinn í borginni á næsta ári. Alls séu tæplega 4.200 íbúðir í byggingu í borginni.

Til að setja þá tölu í samhengi verða alls 360 íbúðir á RÚV-reitnum í Efstaleiti fullbyggðum.

„Við sjáum í tölum okkar að það eru 2.000 íbúðir að koma inn á markaðinn í Reykjavík á næsta ári en mjög stór hluti þeirra er á vegum húsnæðisfélaga sem eru ekki að vinna í hagnaðarskyni,“ segir Dagur um væntanlegt framboð.

Skoða fleiri eignir

„Húsnæðismarkaðurinn er orðinn miklu heilbrigðari. Það er óheilbrigt ef meðalsölutími íbúða er örfáar vikur. Þegar maður ræðir við reynda fasteignasala segja þeir að staðan sé mikið líkari því sem við eigum að venjast; að það taki einhvern tíma að selja eignirnar og að fólk skoði fleiri en eina íbúð og svo framvegis, enda er oft verið að taka ákvarðanir til áratuga. Það er mikilvægt að fólki upplifi markaðinn ekki þannig að það sé verið að selja síðustu íbúðina í Reykjavík í hverri einustu sýningu,“ segir Dagur.

Kemur til móts við þarfir stúdenta

- Mun húsnæðiskostnaður sem hlutfall af ráðstöfunartekjum lækka með auknu framboði?

„Ekki endilega. Ég hef ekki tekið þátt í þessari umræðu. Finnst það vera hlutverk annarra að spá um slíka hluti. En það sem mér finnst augljóst er að fjölgun stúdentaíbúða mun til dæmis koma til móts við hóp sem er að hluta til annaðhvort í erfiðri stöðu á húsnæðismarkaði eða í heimahúsum.

Uppbygging Bjargs og verkalýðshreyfingarinnar mun koma til móts við fólk með lægri tekjur sem hefur ekki átt greiða innkomu á húsnæðismarkaðinn. Við erum með stórt verkefni sem heitir hagkvæmt hús og beinist að ungu fólki og fyrstu kaupendum sem heldur hefur ekki verið sinnt á húsnæðismarkaði.

Þannig að heildartalan segir ekki allt því við erum að koma til móts við hópa sem hafa ekki verið að komast inn á markaðinn. Þannig að húsnæðisáætlun borgarinnar gengur út á húsnæði fyrir alla,“ segir Dagur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert