Hagkvæmni strandflutninga verði skoðuð

Flutningabíll á Holtavörðuheiði.
Flutningabíll á Holtavörðuheiði. Sigurður Bogi Sævarsson

Ásmundur Friðriksson hefur ásamt nokkrum öðrum alþingismönnum lagt fram tillögu til þingsályktunar um könnun á hagkvæmni strandflutninga. Þingmennirnir sem bera upp tillöguna með Ásmundi eru Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigurður Páll Jónsson, Guðjón S. Brjánsson, Oddný G. Harðardóttir og Ari Trausti Guðmundsson, og í henni segir að Alþingi álykti að „fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að láta kanna hagkvæmni þess að halda úti tveimur strandflutningaskipum til að flytja vörur um landið með það að markmiði að minnka vöruflutninga á þjóðvegum og draga þannig úr sliti á vegakerfinu. Í úttektinni verði m.a. skoðaður möguleiki á að nýta skipin til sorpflutninga og sem björgunarskip í neyðartilfellum. Jafnframt verði skoðuð hugsanleg aðkoma ríkis og sveitarfélaga að slíku verkefni. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skili skýrslu og kynni Alþingi niðurstöður hennar eigi síðar en 1. apríl 2020“.

Þungar bifreiðar auka slit á þjóðvegum

Í greinargerð segir að með vaxandi umferð hafi slit á vegum aukist til muna en þar vegi þungaflutningar mest. „Þungar bifreiðar slíta þjóðvegum landsins margfalt á við léttar fólksbifreiðar. Þungaumferð brýtur niður burðarlög veganna sem veldur því að með tímanum minnkar burðarþol þeirra og viðhaldsþörf eykst. Talið er að áhrif þyngdar hafi fjórða veldis áhrif á niðurbrot veganna. Þetta þýðir að öxull sem er 10 tonn að þyngd hefur 10 þúsund sinnum meiri áhrif á niðurbrot vega en öxull sem er 1 tonn.

Strandsiglingar væru nútímalegri og umhverfisvænni kostur en landflutningar þar sem mögulegt er að tvö vel búin skip sem sigla í kringum landið, annað réttsælis og hitt rangsælis, í vikulegri og tveggja vikna áætlun losi minni koltvísýring en losaður er með landflutningi. Hægt væri að hafa vélbúnaðinn knúinn að hluta eða öllu leyti með vistvænu eldsneyti, t.d. náttúrugasi (LNG) eins og metani,“ segir meðal annars í greinargerðinni.  

Þar segir einnig að flutningsmenn hafi ekki skoðað eignarfyrirkomulag strandferðaskipa en telji að samstarfsverkefni hins opinbera og einkaaðila væri hagkvæmasti kosturinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert