Tveir í haldi vegna elds

mbl.is/Eggert

Slökkvilið og lögregla voru kölluð út vegna elds og reyks upp úr strompi á fyrrverandi veitingastað á Barónsstíg, Argentínu, um miðnætti. Lögreglan handtók tvo einstaklinga á staðnum og eru þeir vistaðir í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.

Að sögn varðstjóra í slökkviliðinu hafði verið kveikt upp í arni í húsnæðinu og varð mikið bál. Ágætlega gekk að slökkva eldinn en að hans sögn hefði getað farið mjög illa. Ekki er vitað um hversu mikið tjónið varð en engin starfsemi er í þessum hluta hússins við Barónsstíg.

Veitingastaðurinn Argentína steikhús var rekinn um árabil við Barónsstíg áður …
Veitingastaðurinn Argentína steikhús var rekinn um árabil við Barónsstíg áður en hann fór í þrot. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Töluvert var um tilkynningar um innbrot til lögreglunnar í nótt. 

Brotist var inn í fyrirtæki í miðborginni (hverfi 101) í nótt, tvö fyrirtæki í Hafnarfirðinum og eitt í Garðabæ. Eins var brotist inn í bíl í Grafarvogi. Allar tilkynningarnar bárust frá 2:44 til klukkan 4:50 í nótt. Ekki er skráð í dagbók lögreglunnar hverju var stolið á hverjum stað. 

Tvær tilkynningar bárust um búðarþjófnað í gær. Í Breiðholti var stolið úr verslun í hverfi 109 og barst tilkynning þar að lútandi til lögreglu skömmu fyrir klukkan 18. Foreldrar komu og sóttu börn sín sem grunuð eru um verknaðinn. 

Í seinna tilvikinu var einstaklingur tekinn við þjófnað í Kringlunni og var hann látinn laus að lokinni skýrslutöku.

Óskað var eftir aðstoð lögreglu í verslun í Austurbænum (hverfi 108) á þriðja tímanum í nótt vegna manneskju sem lét illa inni í versluninni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert