Væri misráðið að hækka gjöld á tengiltvinnbíla

Jón Trausti bendir á að tengiltvinnbílar ryðji brautina fyrir rafmagnsbíla …
Jón Trausti bendir á að tengiltvinnbílar ryðji brautina fyrir rafmagnsbíla og að með nýjustu kynslóðum megi aka mun lengra á rafmagninu einu saman. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Tillaga liggur núna fyrir Alþingi sem felur í sér að í árslok 2020 verði hætt að veita afslátt af virðisaukaskatti á nýja tengiltvinnbíla. Á sínum tíma kynntu stjórnvöld til sögunnar sérstakar ívilnanir til að örva sölu rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla sem fólu í sér niðurfellingu virðisaukaskatts af innflutningsverði nýrra bíla, upp að 4 milljónum króna, í tilviki tengiltvinnbíla. Átti þessi heimild að gilda til 2020, og fyrir að hámarki 10.000 bíla í hverjum flokki, en tillagan sem Alþingi er núna með til skoðunar felur í sér að hækka ívilnunina fyrir rafmagnsbíla upp í fyrstu 6 milljónir innflutningsverðs og framlengja til 2022. Verði ívilnun tengiltvinnbíla ekki framlengd og aukin má vænta þess að það hækki söluverð nýrra tengiltvinnbíla um 960.000 kr. frá því sem nú er.

Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju og formaður Bílgreinasambandsins, fjallar um þetta í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Hann bendir á að ívilnunin hafi hjálpað til að stórauka útbreiðslu tengiltvinnbíla hér á landi, enda bílar sem henti íslenskum aðstæðum mjög vel. „Fyrir hinn almenna kaupanda eru tengiltvinnbílar aðgengilegur kostur og tækninni fleygir fram svo að með nýjustu kynslóðum er algengt að aka megi frá 50 upp í næri 100 km á rafhleðslunni eingöngu,“ útskýrir Jón Trausti. „Þetta þýðir að tengiltvinnbíllinn virkar í raun eins og rafmagnsbíll í daglegum samgöngum fólks, enda aka flestir á bilinu 20 til 40 km á dag í venjulegum innanbæjarakstri. Á ársgrundvelli gæti hinn almenni ökumaður nýs tengiltvinnbíls reiknað með að fara um 80 til 90% allra sinna ferða á rafmagninu einu saman.“

Erfitt að skaffa nógu marga rafmagnsbíla

Ef afsláttar af virðisaukaskatti nýtur ekki lengur við segir Jón Trausti að kaupendur lendi í þeim sporum að hagkvæmara verði að kaupa hefðbundinn bensín- eða díselbíl frekar en tengiltvinnbíl, og ljóst að það myndi valda bakslagi í orkuskiptum íslenska bílaflotans. „Þó að framboð og úrval rafmagnsbíla hafi aukist er ekki hægt að reikna með að þeir verði fyrir valinu hjá hinum almenna kaupanda og alls óvíst hvort framleiðendur geti skaffað íslenska markaðinum rafbíla í nægilegu magni til að anna eftirspurn og endurnýjunarþörf. Sjálfur flyt ég inn rafbíla frá þremur stórum framleiðendum og erum við í dag ekki að fá það magn sem við myndum vilja fá til landsins.“

Jón Trausti bendir jafnframt á að tengiltvinnbílar ryðji brautina fyrir rafmagnsbíla og eigi þátt í að bæta rafmagnsinnviðina. „Þegar fólk fær sér tengiltvinnbíl þá kaupir það oft líka hleðslustöð fyrir heimilið, og venst því að aka um á rafmagnshleðslunni eingöngu. Þessa sömu hleðslustöð má svo nota þegar ákveðið er að skipta yfir í rafmagnsbíl.“

Frekar en að hætta ívilnunum með öllu í árslok 2020 leggur Jón Trausti til að afsláttur af virðisaukaskatti á tengiltvinnbíla verði trappaður niður, eða haldið óbreyttum og  undanþáguheimildum fyrir rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla steypt í einn pott. Þrátt fyrir mikla aukningu í sölu sé enn langt í að takist að fylla þann 10.000 bíla kvóta sem lagt var upp með fyrir bæði rafmagns- og vetnisbíla. „Við munum seint sjá 10.000 vetnisbíla á götunum hér á landi enda er sú tækni sem er í boði núna mjög dýr og innviðir litlir. Skynsamlegast væri að leggja áherslu á tengiltvinnbíla af annarri og þriðju kynslóð, og svo hreina rafbíla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert