ADHD er fíllinn í herberginu

Allt að 15% Íslendinga eru með ADHD sem er mun hærra hlutfall en annars staðar á Norðurlöndunum, segir Haraldur Erlendsson geðlæknir. ADHD er fíllinn í herberginu sem enginn vill tala um segir hann. 

Haraldur flutti fyrirlestur á fræðslufundi Íslenskrar erfðagreiningar í dag. Hann fjallaði um um ADHD á Íslandi, fjölda greininga á fullorðnu fólki og hvernig þær hafa tekið breytingum. Hann veltir fyrir sér af hverju svona margir Íslendingar séu að greinast eða bíða eftir greiningu og skoðar einkenni ADHD og hvernig þau birtast í samfélaginu sem heild og hafa áhrif á daglegt líf okkar allra.

Hann segir að ADHD sé algengasti kvillinn sem geðlæknar fást við í sínu starfi og fólk með ADHD sé fólkið sem er alltaf út um allt. Fólk með ADHD tekur meiri áhættu en aðrir og lendir oftar í vandamálum en aðrir. Eiga erfitt með að takast á við vandamál og eru líklegri til að lenda í kulnun og öðru slíku. 

Haraldur talaði um áhyggjur fólks af misnotkun örvandi lyfja og vitað sé að fólk sem er með alvarlegan fíknivanda og misnotar lyf með því sprauta sig í æð notar oftast örvandi lyf til þess. Hann segir að það sé spurning um hvort lítill hópur með alvarlegan fíknivanda séu að hafa þau áhrif að stór hópur fái ekki þá þjónustu og hann þarf en mikil umræða hefur verið um misnotkun lyfja í fjölmiðlum undanfarin ár. 

Haraldur segir að örvandi efni hafi alltaf verið misnotuð og notuð í flestum þjóðfélögum. Þar séu fólk með ADHD fremst í flokki enda þarf það á einhverju að halda, svo sem orkudrykkjum, tóbaki og gosdrykkjum. 

Haraldur segir að vitað sé að sjúklingar séu að selja lyfin sín til að bæta afkomu sína en við erum mörgum sinnum duglegri en aðrir á Norðurlöndum að greina ADHD og sérstaklega hjá piltum. Án lyfja eru flestir þeirra sem eru með ADHD ófærir um að bæta líðan og segir Haraldur að þeir þurfi meðhöndlun með lyfjum í fimm ár til þess að ná árangri en flestir hætta að taka lyf eftir þrjá mánuði. 

Kynjahlutföllin svipuð

Inga Dóra Sigfúsdóttir prófessor.
Inga Dóra Sigfúsdóttir prófessor. mbl.is/Ómar Óskarsson

Inga Dóra Sigfúsdóttir prófessor rifjaði upp í sínu erindi þjóðarátak gegn unglingadrykkju og hvernig drykkja ungmenna fór úr 42% árið 1998 í 5% í dag. Það er unglingar sem segjast hafa orðið drukknir undanfarna 30 daga. Hún segir að þrátt fyrir samstillt átak og mikla vinnu missum við alltaf hluta hópsins í neyslu. Í hverjum árgangi séu um fjögur þúsund börn og 5% þeirra séu um 200 ungmenni. Árið 1998 voru dönsk ungmenni í svipaðri stöðu og íslensk en Danir fóru ekki í átak líkt og Íslendingar. Í dag er staðan sú þar að 56% ungmenna segjast hafa orðið drukkin undanfarna 30 daga. 

Hún segir að unglingar sem mælast háir á ADHD-kvörðum séu líklegri fórnarlömb þeirra sem græða á neyslu vímuefna, það er markaðsöflunum. Því þeir eru líklegri að neyta vímuefna en önnur ungmenni og þá sérstaklega kannabis. Eins eru þau líklegri til að ánetjast fíkniefnum. Þau eru ólíklegri til að ná árangri í námi og eru líklegri að detta úr skólakerfinu. ADHD krakkar sem búa við erfiðar aðstæður á heimili eru einnig líklegri til að sýna hegðunarraskanir að sögn Ingu Dóru. 

Eitt af því sem hún er að rannsaka er kynjamunur þegar kemur að ADHD meðal ungmenna. Þar kemur í ljós að á heildina litið er hlutfall ungmenna með ADHD svipað, það er rúmlega 10% og það sama á við um undirflokka eins og ofvirkni og athyglisbrest. Aftur á móti er kynjamunur þegar kemur að svörum á ADHD prófi. Það er strákar eru líklegri til að vera óþekkir en stelpur og fá oftar greiningar og um leið lyf. Þrátt fyrir að þeir eigi erfiðara með að sitja kyrrir og annað slíkt þýðir ekki að stelpur þurfi ekki aðstoð, segir Inga Dóra en strákarnir eru meira truflandi fyrir umhverfi sitt en stelpurnar leiðast frekar út í vímuefnaneyslu og aðra sjálfskaðandi hegðun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert