Eftirlýstur ólátabelgur handtekinn

Nokkrar manneskjur þurftu á bráðamóttökuna í nótt eftir fall.
Nokkrar manneskjur þurftu á bráðamóttökuna í nótt eftir fall. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan hafði afskipti af manni í annarlegu ástandi sem var til vandræða fyrir utan hótel í Hafnarfirðinum í nótt. Í ljós kom að maðurinn var eftirlýstur og var hann því handtekinn og vistaður í fangaklefa.

Talsverður erill var í nótt hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þar sem áttatíu mál eru skráð og gistu átta manns fangaklefa.

Einn þeirra var handtekinn í miðborginni (hverfi 101) í mjög annarlegu ástandi. Þar sem ekki var hægt að hafa manninn í þessu ástandi úti á meðal fólks og ekki hægt að koma honum í húsaskjól var hann vistaðu í fangaklefa.

Tveir menn handteknir í Austurbænum (hverfi 105) þar sem þeir voru að brjótast inn í bifreiðar í hverfinu. Mennirnir vistaðir í fangaklefa.

Maður í mjög annarlegu ástandi var handtekinn á veitingastað í miðborginni þar sem hann var að áreita starfsfólk. Maðurinn er vistaður í fangaklefa.

Maður handtekinn í miðborginni vegna þjófnaðar úr verslun. Málið var afgreitt með vettvangsskýrslu á lögreglustöð og í framhaldinu var honum sleppt

Kona datt á höfuðið með þeim afleiðingum að úr blæddi fyrir utan skemmtistað í miðborginni. Að skoðun lögreglunnar lokinni fór hún sjálf á slysadeild.

Ofurölvi maður féll á höfuðið fyrir utan skemmtistað miðborginni og fékk hann skurð á höfuðið við fallið. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Annar maður féll á andlitið í Árbænum og var fluttur á slysadeild til aðhlynningar enda alblóðugur eftir fallið.

mbl.is