„Framganga hinna meintu hægri manna“

Hanna Katrín Friðriksson.
Hanna Katrín Friðriksson. Ljósmynd/Aðsend

Viðreisn hélt fund undir yfirskriftinni „Á þjóðin kvótann eða kvótinn þjóðina?“ fyrr í dag. „Tilefni fundarins voru fréttir vikunnar um viðskiptahætti Samherja í Namibíu og síðan fréttir um að nærri 90% af styrkjum sjávarútvegsfyrirtækja til stjórnmálaflokka fari einmitt til þeirra flokka sem berjist harðast gegn umbótum á fiskveiðikerfinu okkar,“ segir í fréttatilkynningu frá Viðreisn.

Á fundinum voru Hanna Katrín Friðriksson og Þorsteinn Víglundsson með erindi og fundarstjóri var Jarþrúður Ásmundsdóttir.

„Í erindi sínu sagði Hanna Katrín að siðferðilegur trúnaðarbrestur hafi orðið milli sjávarútvegs og þjóðar, sem þurfi að laga. Það þurfi að endurvekja traustið.

„Ég get ekki látið hjá líða,“ sagði hún einnig: „að nefna íroníuna í framgöngu hinna meintu  hægrimanna í núverandi ríkisstjórn sem svo ákaft hafna markaðsleiðinni þegar hún raunverulega skiptir máli fyrir almannahagsmuni. Þessir menn ættu að vera brjálaðir, brjálaðastir, út í þessa óheiðarlegu viðskiptahætti sem teiknaðir hafa verið upp – af því að þetta er einfaldlega aðför að hugmyndafræðinni um kosti frjálsra viðskipta. Mögulega skiptir annað meira máli þarna, sú staðreynd að þessir menn sjá það sem við öll sjáum, að þetta mál setur núverandi fyrirkomulag veiðigjalda í hættu. Staðreynd sem er tækifæri fyrir okkur og alla þá sem vilja breyta þessu fyrirkomulagi, með almannahagsmuni í huga.“

Hanna Katrín bætti síðan við, að þegar upp er staðið felist í þessu ömurlega máli tækifæri. Tækifæri til að gera alvöru atlögu að þessu kerfi sem hefur svo augljóslega verið notað til að viðhalda og efla auð og völd tiltekinna hagsmunahópa á kostnað alls almennings,“ segir í tilkynningu.

Þorsteinn Víglundsson.
Þorsteinn Víglundsson. mbl.is/Eggert

Þorsteinn fjallaði um það að eigið fé fyrirtækja í sjávarútvegi hafi vaxið jafnt og þétt frá hruni og að sjávarútvegurinn sé mun arðsamari en annað atvinnulíf. „Þar benti hann á að atvinnugreinar sem fá að nýta sameiginlegar auðlindir án endurgjalds, eða með lágu endurgjaldi, séu yfirleitt arðbærari en aðrar atvinnugreinar. Sennilega sé það engin tilviljun. Spurningin sé miklu frekar hvernig þjóðin eigi að njóta arðs af þessari auðlind sinni, sér í lagi þegar sjávarútvegurinn sé orðinn að valdablokk, og einn öflugasti fjárfestirinn á íslenskum hlutabréfamarkaði utan lífeyrissjóða. Það er spurning sem við svörum með því að ákveða hvernig við verðleggjum nýtingarrétt af auðlindinni.

Hann sagði: „Þegar fólk sest niður til að ræða það hvernig við getum tryggt hlut þjóðarinnar í þessum verðum sínum þá kemst það alltaf að sömu niðurstöðunni – að lykilatriði sé að tímabinda nýtingarréttinn í stað þess að hafa hann ótakmarkaðan.“

Þorsteinn benti á það að Viðreisn vilji tryggja sátt um sjávarútveginn til framtíðar. Í stað veiðileyfagjalds verði ákveðinn hluti kvótans settur á markað á hverju ári. Þannig fæst sanngjarnt markaðstengt gjald fyrir aðgang að auðlindinni og umgjörðin um atvinnugreinina verður stöðug til frambúðar. Leiðin hvetur til hagræðingar og hámarks arðsemi þegar til lengri tíma er litið. Einnig opnast leið fyrir nýliðun. Afgjaldi fyrir nýtingarétt á auðlindinni verði að hluta til varið í þeim byggðum sem hafa orðið fyrir þungum búsifjum vegna tilfærslu kvóta.

Þorsteinn sagðist vona að ríkisstjórnarflokkarnir muni sannfærast um nálgun Viðreisnar um sanngjarnt, einfalt og gagnsætt fyrirkomulag til tímabindingar kvótans og sölu hans á opnum markaði. En hann segist ekki ætla að halda niðri í sér andanum,“ segir ennfremur í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert