Jólakötturinn mættur á vaktina

Jólakötturinn er engin smásmíði.
Jólakötturinn er engin smásmíði. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Töluverður mannfjöldi var á Lækjartorgi síðdegis í dag til þess að bjóða velkomin vel lýstan jólaköttinn.

Er þetta í annað sinn sem jólakötturinn lýsir upp aðventuna í miðborginni. Kötturinn, sem er 5 metrar á hæð og 6 metrar á breidd, er engin smásmíði.

Heiðurshjónin þau Grýla og Leppalúði mættu á Lækjartorg í dag ásamt jólakettinum, sem þau vilja meina að sé sinn. Léku hjónin á alls oddi og segir í fréttatilkynningu Reykjavíkurborgar að margir hafi látið mynda sig með þeim.

Borgarstjóri kveikti ljósin á kettinum með aðstoð barna og barnakórinn Graduale Futuri söng nokkur jólalög að þessu tilefni.

Kötturinn er lýstur upp með 6500 led ljósum og mun standa vaktina á Lækjartorgi fram yfir áramót.

Kisi vakti áhuga bæði barna og fullorðinna.
Kisi vakti áhuga bæði barna og fullorðinna. Ljósmynd/Reykjavíkurborg
mbl.is