Ranglega ásakaðar um verkfallsbrot

Merki Blaðamannafélags Íslands.
Merki Blaðamannafélags Íslands.

Blaðamannafélag Íslands hefur beðið þrjár blaðakonur afsökunar á að vera ranglega dregnar inn í málarekstur félagsins gegn meintum verkfallsbrotum Árvakurs.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Blaðamannafélaginu, en blaðakonurnar sem starfa á mbl.is höfðu lagt niður störf er fréttir voru birtar í þeirra nafni meðan á fjögurra stunda vinnustöðvun stóð á föstudaginn í síðustu viku.

Hefur BÍ hefur falið lögmanni sínum að laga stefnu félagsins til Félagsdóms að þessum staðreyndum og hafa blaðakonurnar verið beðnar afsökunar á því að hafa ranglega verið dregnar inn í málsrekstur vegna verkfallsbrotanna. Segir í tilkynningu BÍ að Árvakur verði krafinn skýringa á því hver beri ábyrgð á og hafi staðið á bak við birtingu fréttanna að blaðakonunum forspurðum á meðan vinnustöðvunin stóð yfir.

Önnur lota vinnustöðvunar BÍ var í gær, þar sem myndatökumenn, ljósmyndarar og blaðamenn á vefmiðlum, sem eru félagar í BÍ, lögðu niður störf í átta stundir.

mbl.is