„Samfélagslegum gildum okkar er ógnað“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, skorar á verkalýðshreyfingu að stíga …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, skorar á verkalýðshreyfingu að stíga upp og takast á við spillingu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að nú sé komið að stóra prófinu hjá íslensku þjóðinni eftir nýjustu fréttir af „afrekum Samherja á erlendri grundu“. Hann skorar á verkalýðshreyfinguna að fara af stað með þverpólitísk stjórnmálaframboð til höfuðs þeim sem „allt vilja fá og ekkert gefa í staðinn“.

Þetta segir Ragnar í Facebook-færslu sinni sem hann birti fyrr í dag. Færslan hefur vakið mikla athygli þrátt fyrir að hafa ekki verið þar lengi og margir taka undir það sem þar kemur fram.

Almenn spilling og Samherjamálið er honum hugleikið og telur Ragnar að tími til aðgerða sé kominn. Hann segir stjórnendur Samherja og strengjabrúður þeirra hafa sýnt það í orði og á borði að iðrun þeirra sé engin heldur sé allt kapp lagt á að afvegaleiða umræðuna og skella skuldinni á aðra.

„Skítt með þá“

„Málið lýsir ógnvænlegu og siðlausu viðhorfi peningaafla til samfélaga, lýsir fordæmalausum hroka og viljaleysi til þátttöku í uppbyggingu innviða.
Lýsir afdráttarlausum hroka og einbeittum brotavilja. Svo einbeittum að öll ráð skulu höfð úti um að greiða sem minnst til baka svo samfélagsreksturinn geti staðið undir sér. Skítt með okkar veikustu bræður og systur. Skítt með þau. Skítt með innviðina. Skítt með þá,“ skrifar Ragnar.

Hann segir spillinguna ekki bundna við eitt Afríkuríki heldur séu vinnubrögðin þau sömu og hafa verið stunduð hér á landi í fortíð og nútíð. Viðhorfið sé það sama og þegar tugþúsundum heimila hafi verið fórnað í kjölfar fjármálahrunsins.

Fremst meðal jafningja þegar kemur að peningaþvætti og spillingu

„Fólkinu var fórnað eins og að drekka vatn. Sama er viðhorf þeirra sem svindluðu mest á þjóðinni, og gera jafnvel enn, og telja sig jafnvel vera hin raunverulegu fórnarlömb. Viðhorfið er svo sjúkt og ríkjandi að eftir er tekið á erlendri grund, sem einhvers konar þjóðaríþrótt Íslendinga. Og erum við listuð upp sem fremst á meðal jafningja þegar kemur að peningaþvætti og annarri spillingu.“

Hann segir að hvergi sé betra að vera en hér á landi ef komast eigi hjá því að borga auðlindagjöld og skatta. Þá hafi Seðlabanki Íslands verðlaunað skattsvikara og svindlara í gegnum fjárfestingaleið bankans „þar sem þeir fengu gefins peninga“.

Vill valkost sem refsar þeim sem taka allt en gefa ekkert

„Þrælslund þjóðarinnar og umburðarlyndi fyrir spillingunni hlýtur að hafa farið yfir einhver áður þekkt mörk síðustu ár og eftir nýjustu fréttir af afrekum Samherja á erlendri grundu hlýtur að vera komið að stóra prófinu hjá þjóðinni,“ skrifar hann og bætir við að valkostir kjósenda til raunverulegra breytinga séu af mjög skornum skammt enda nái hagsmunaaðilar og peningaöflin alltaf yfirhöndinni í aðdraganda kosninga.

Ragnar spyr hvort ekki sé kominn tími á að kjósendur fái raunhæfan valkost. Valkost sem snúi að raunverulegum breytingum á kerfi sem mergsjúgi samfélagið að utan sem innan, valkost sem refsar þeim sem allt vilji fá og ekkert gefa.

„Ég skora hér með á verkalýðshreyfinguna að standa undir nafni og leiða fram slíkan valkost. Valkost málefna sem ekki verður haggað eða gjaldfelldar á valda og bitlingahlaðborði ríkjandi afla. [...] Tökum málin í eigin hendur og stigum fram sem sameinað umbótaafl gegn spillingunni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert