Samlestur á hægvarpi

Almannarómur – Miðstöð um máltækni – og RÚV standa fyrir maraþonlestri inn í gagnagrunninn samromur.is á degi íslenskrar tungu í húsnæði RÚV í dag og verður lesturinn sýndur í beinni útsendingu í hægvarpi RÚV klukkan 12-16. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Almenningi gefst því kostur á að kíkja í útvarpshúsið og lesa inn valda texta í beinni útsendingu. Á vefsvæðinu samromur.is er hægt að lesa inn sýnishorn, eða raddsýni, í þágu hugbúnaðarþróunar á máltækni fyrir íslensku hvenær sem er.

Síðdegis bjóða Almannarómur, RÚV, Miðeind, Icelandic Startups, Nýsköpunarmiðstöð, SÍM og Crowberry Capital til nýskapandi íslenskuhátíðar í Iðnó og hefst hún klukkan 17:30.

„Nýskapandi mál hefst á því að Jón Guðnason, dósent við verkfræðideild HR, afhendir Rögnu Árnadóttur, skrifstofustjóra Alþingis, gervigreindan talgreini sem skráir ræður alþingismanna sjálfkrafa. Í erindinu „Öll velkomin“ mun Anton Karl Ingason, lektor í íslenskri málfræði og máltækni við HÍ, fjalla um tillitsama málfarsráðgjöf fyrir fjölbreytta viðskiptavini. Helga Valfells, framkvæmdastjóri Crowberry Capital, lýsir mikilvægustu þáttunum við uppbyggingu sprotafyrirtækis í máltækni, frá sjónarmiði fjárfesta. Skáldið Gerður Kristný brýnir gesti og forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, aðstoðar þau Vilhjálm Þorsteinsson og Kötlu Ásgeirsdóttur frá Miðeind við opnun Emblu, fyrsta íslenska radd-appsins.

Reykjavíkurdætur og Ásta Pétursdóttir slá svo botninn í dagskrána með kraftmiklum tónleikum á kjarnyrtri íslensku og verða tónleikarnir í beinni útsendingu á Rás 2,“ segir í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert