Aukið sjálfstæði sé betra fyrir kirkjuna

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/​Hari

„Þetta snýst ekki um það hvort maður sé á móti kirkjunni eða ekki. Ég er með engum hætti að segja að ég sé andsnúinn kirkjunni, ég held einfaldlega að þetta sé betra fyrir kirkjuna,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun spurð um það hvort að með tillögum sínum um aðskilnað ríkis og kirkju væri hún þar með komin í ágreining við eldri eða íhaldssamari Sjálfstæðismenn.

Áslaug Arna var fyrsti gestur Kristjáns Kristjánssonar umsjónarmanns Sprengisands  og ræddu þau um ýmis málefni þ.á.m. stöðu lögreglu í landinu, útlendingamál, málefni þjóðkirkjunnar og Samherjamálið.

Stærsta skrefið til aukins sjálfstæðis

Ummæli Áslaugar um að aðskilnaður kirkju og ríkis væri óhjákvæmilegur voru gerð að umræðuefni og var hún spurð hvort hennar afstaða væri ekki í ósamræmi við vilja þjóðarinnar. Áslaug svaraði því þannig að það stæði ekki til að aðskilja ríki og kirkju á næstu 2 til 3 árum.

Það væri hins vegar þannig að nú til dags væri meiri krafa á sjálfstæði trú- og lífsskoðunarfélaga en nokkurn tímann áður og þróunin hafi verið í þá átt. Þá hafi stuðningur aukist innan kirkjunnar um að öðlast meira sjálfstæði.

Hún nefndi sem dæmi samning milli ríki og kirkju frá því í september þar sem kveður á um að frá áramótum muni prestar ekki verða ríkisstarfsmenn og að kirkjan fái meiri völd yfir sínum fjármunum. Áslaug sagði það eitt stærsta skrefið sem hefði verið tekið til að auka sjálfstæði kirkjunnar.

Þjóðin hefur lokaorðið hverju sinni

„Auðvitað verður þetta [staða ríkis og kirkju] alltaf í takt við vilja þjóðarinnar hverju sinni, ákvæði í stjórnarskrá verða aldrei tekin út nema með þjóðaratkvæðagreiðslu,“ sagði Áslaug Arna en bætti því við að við þyrftum að þora að hugsa til framtíðar í þessum efnum svo við endum ekki í ógöngum ef sú staða kemur einhvern tímann upp að innan við helmingur íbúa sé skráður í þjóðkirkjuna.

„Það er alltaf undið kirkjunni komið hverju sinni að vera í takti við þjóðina og vera þannig að fólk leiti til hennar og treysti hennar hvort sem það er á erfiðum tímum eða gleðitímum, hver sem staða hennar verður gagnvart ríkinu hverju sinni. En ég held það sé óhjákvæmilegt að velta því fyrir sér hver næstu skref verða,“ bætti ráðherra við.

Áslaug tók það fram að aðskilnaður ríkis og kirkju hefði verið í skoðun í mörg ár og vinna við það hefði farið fram með ýmsum hætti. Hún sagði að hægt væri að taka Fríkirkjuna sem dæmi um fyrirmynd, hún starfi undir sömu trúformerkjum og þjóðkirkjan en óháð ríkinu.

„En ég er ekki að leggja það til að það verði fullur aðskilnaður á næstu tveimur árum heldur að spyrja hvort við eigum ekki að skoða það hvort það sé óhjákvæmilega framtíðin og gera þá plan sem er best fyrir ríki og kirkju í senn. Þetta snýst aðallega um aukið sjálfstæði kirkjunnar sem ég held að sé almennt gott fyrir kirkjuna,“ bætti hún við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert