Barni komið undir læknishendur

Mikið álag er á starfsfólk bráðamóttökunnar í Fossvogi alla daga …
Mikið álag er á starfsfólk bráðamóttökunnar í Fossvogi alla daga ársins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tilkynnt var um stúlku í mjög annarlegu ástandi í Grafarholti eða Úlfarsárdal (hverfi 113) á næturvakt lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Stúlkunni var komið undir læknishendur ásamt því að móðir stúlkunnar var upplýst um málið og tilkynning send á barnavernd Reykjavíkur.

Lögreglunni barst ábending um konu í mjög annarlegu ástandi í Breiðholtinu (hverfi 111) þar sem hún lá úti í nótt. Lögreglan sá til þess að konan kæmist undir læknishendur.

Afskipti voru höfð af manni í miðborginni sem var að áreita fólk. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni gat maðurinn enga grein gert fyrir sér og né framvísað skilríkjum en um útlending var að ræða. Eins fundust fíkniefni á manninum og er hann vistaður í fangaklefa í nótt. Lögreglan handtók mann í Grafarvoginum (hverfi 112) í nótt vegna líkamsárásar og er hann einnig í fangaklefa. Hið sama á við um annan mann sem var handtekinn í Garðabænum vegna líkamsárásar.

Brotist inn í Gerðarsafn

Einn þeirra sem gista fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var handtekinn í miðborginni (hverfi 101) þar sem hann var í mjög annarlegu ástandi og ekki með nokkru móti hægt að tjónka við hann.

Aftur á móti var ofurölvi manni við hótel í Austurbænum (hverfi 108) ekið til síns heima. Maður var fluttur á bráðamóttökuna eftir fall í miðborginni. Ekki er vitað hversu alvarleg meiðsl hans eru. 

Lögreglan handtók mann sem braust inn í Gerðarsafn í gærkvöldi eða nótt. Hann náðist nokkrum mínútum eftir innbrotið og þýfið komst aftur til skila. Maðurinn er vistaður í fangageymslum lögreglunnar. Annar var handtekinn í Kópavoginum í nótt vegna hótana og eignaspjalla. Hann er einnig í fangaklefa lögreglunnar. 

Mikið var um út­köll hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þar sem fólk var í ann­ar­legu ástandi og virt­ist góða skapið vera ein­hvers staðar víðsfjarri. Um sjö­tíu mál voru skráð hjá lög­reglu frá klukk­an 19:00 til 05:00. Sjö gistu fanga­klefa í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert