Deildu um útleigu á hundakofum frammi fyrir EFTA

Frá vinstri: Maja Aleksandra Bednarowicz, Ólöf Embla Eyjólfsdóttir, Eva Hauksdóttir …
Frá vinstri: Maja Aleksandra Bednarowicz, Ólöf Embla Eyjólfsdóttir, Eva Hauksdóttir og Jón Sigurðsson. Ljósmynd/Aðsend

Gervimál um útleigu á hundakofum annars vegar og réttinn til að horfa á meistaramót í handknattleik í appi hins vegar var það sem meistaranemar í lögfræði tókust á um í málflutningskeppni Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, sem var haldin hérlendis á dögunum. 

Nemendur úr Háskóla Íslands sigruðu í keppninni og var Eva Hauksdóttir, úr liði Háskóla Íslands, valin ræðumaður keppninnar. Auk Evu voru í liðinu Ólöf Embla Eyjólfsdóttir, Jón Sigurðsson og Maja Aleksandra Bednarowicz. Þau hittu vart fjölskyldur sínar eða sinntu félagslífi í um mánuð fyrir keppni og uppskáru ríkulega fyrir það. 

Þátttakendur í keppninni þurftu að vera tilbúnir í að sitja beggja vegna borðsins, bæði sem sækjendur og sem verjendur, fyrir einkaframtakið og fyrir ríkisvaldið.

„Þetta var keppni þar sem öll lið undirbjuggu sinn málflutning sem lögmenn. Annars vegar fyrir borgarann og hins vegar fyrir ríkið. ESA gaf út verkefni með nokkrum spurningum og allir ræðumenn þurftu að undirbúa sig í málflutningi á báðum hliðum þessara spurninga. Keppnin var þannig að önnur spurningin var tekin fyrir á laugardaginn og hin spurningin á sunnudaginn. Í hádeginu á sunnudaginn fengum við svo að vita hverjir kæmust í úrslit og þá var keppt í báðum spurningum og hvert lið fékk klukkutíma fyrir sínar ræður,“ segir Eva. 

Maja, Eva og Ólöf ræða málin og virðast nokkuð vel …
Maja, Eva og Ólöf ræða málin og virðast nokkuð vel inni í hlutverkum sínum sem raunverulegir lögmenn. Ljósmynd/Aðsend

Fræðimenn frá EFTA dæmdu

Liðin kepptu í EES-rétti og Evrópurétti. „Dómararnir sem dæmdu hjá okkur eru fræðimenn sem koma úr þessum heimi, aðallega frá EFTA-dómstólnum sjálfum, frá eftirlitsstofnun EFTA og frá Evrópudómstólnum svo þarna voru flottir dómarar og keppnin var virkilega flott í heild sinni.“

Fyrri daginn tókust liðin á við mál sem tengdist meðal annars hundakofum.

„Það var búið að setja upp mál um gervi-EFTA-ríki þar sem borgari í ríkinu Frón ákvað að koma upp appi, svipuðu Airbnb, til þess að fólk gæti leigt út hluta af heimilinu sínu. Í gegnum appið fór fólk að leigja út hundakofa og litlar einingar sem höfðu ekki verið notaðar sem svefnstaðir áður,“ útskýrir Eva. 

Eva var valin ræðumaður keppninnar en keppt var í lögmennsku.
Eva var valin ræðumaður keppninnar en keppt var í lögmennsku. Ljósmynd/Aðsend

Appinu var vel tekið í EFTA-ríkjum þar til það kom til tilbúna ríkisins Panonia.

„Stjórnvöld þar setja ákveðnar hömlur á þessa starfsemi. Þau segja að ef þú ætlir að leigja út hundakofann þinn þá þurfir þú að fá fasteignasalaleyfi. Það má ekki setja neinar hömlur á viðskipti innan EES-ríkjanna nema það sé hægt að réttlæta þær með einhverju, eins og til dæmis neytendavernd en hún var einmitt ástæðan sem þetta ríki valdi. Því deildum við um það hvort þetta sé neytendavernd í sjálfu sér og hvort það sé hægt að réttlæta ákvörðun ríkisins út frá því,“ segir Eva. 

Ríkið bannaði handbolta-app

Máli sínu til stuðnings vísuðu lögmennirnir meðal annars í dómsmál sem voru tengd Airbnb og Uber. Síðari daginn var annað en tengt mál uppi á teningnum.

„Þar vorum við með app sem streymir meistaramóti í handbolta. Fullt af fólki var búið að kaupa áskrift að þessu appi en í því á að vera hægt að horfa á handbolta bara eins og á þátt á Netflix en svo kemur Panonia og bannar að hægt sé að horfa á mótið í appinu. Fólk þurfti því að horfa á mótið á stöð ríkisins. Þá var spurning hvort það sé í lagi að slökkva á einkaaðilum á meðan ríkið er enn að sýna sitt,“ segir Eva. 

Hópurinn hæstánægður með sigurinn.
Hópurinn hæstánægður með sigurinn. Ljósmynd/Aðsend

Aðspurð segir Eva að málin hafi verið býsna erfið og keppnin tekið á. 

„Teymið okkar var á fullu í svona tvo mánuði fyrir keppni. Síðustu þrjár til fjórar vikurnar fyrir keppni fórum við að sofa um miðnætti og hittumst svo aftur um morguninn. Við hittum ekki fjölskyldurnar okkar í þrjár eða fjórar vikur,“ segir Eva og hlær.

Keppnin víkkaði sjóndeildarhringinn

Þau sem liðið mynduðu ætla vegna keppninnar öll að sérhæfa sig í Evrópurétti en það var ekki ætlun allra áður. 

„Við ætlum jafnvel að prófa að fara út og vinna þar á meðan flestir eru kannski búnir að einblína á markaðinn hérna á Íslandi. Þetta opnaði augu okkar fyrir alls konar,“ segir Eva og bætir við:

„Evrópuréttur er líka bara ótrúlega flókið réttarsvið sem ég held að séu gríðarlega mikil tækifæri fólgin í. Í keppninni fengum við að spreyta okkur á einhverju sem við fáum ekki að prófa í skólanum.“

Í verðlaun hlaut vinningsteymið ferð til útlanda og er Eva himinlifandi með það. „Ferðin er til Brussel og Lúxemborgar. Við fáum að fara á bak við tjöldin hjá þessum helstu stofnunum.“

Spurð hvers vegna hún hafi verið valin sem ræðumaður kvöldsins segir Eva: „Í raun var verið að keppa í lögmennsku og athuga hvernig þú getur sett lögfræðileg álitaefni fram á sannfærandi hátt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert