„Sakleysislegt miðað við árstíma“

Gul viðvörun er í gildi á morgun og fram á …
Gul viðvörun er í gildi á morgun og fram á þriðjudag. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Gul viðvörun er í veðurkortunum fyrir Suðurland á morgun frá klukkan tíu í fyrramálið og fram yfir hádegi. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll sem geta farið yfir 30 m/s. Þetta á einkum við um Kjalarnes, Hafnarfjall og Eyjafjöll. 

Fólk á ferðinni um Suðurland er hvatt til að fara varlega og aka í samræmi við aðstæður. Varasamt er að vera á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind. 

„Þetta er sakleysislegt miðað við árstíma þótt vissulega verði mjög hvasst um tíma undir Eyjafjöllum og stöku hryðjur koma á Faxaflóa,“ segir Elín Jóhannsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Ekki er búist við grjótfoki á þessum slóðum því þetta er austanátt.

Hitinn gæti farið upp í sjö stig í Vestmannaeyjum á þriðjudag með rigningu. Elín segir þetta frekar hlýtt miðað við árstíma. Til að mynda hafi dagurinn í dag, sunnudagur, verið með þeim kaldari og verði kalt á næstu dögum.  

Annars staðar á landinu verður fremur hæg breytileg átt og víða léttskýjað. Frost 0 til 12 stig, kaldast í innsveitum norðanlands. 

Á þriðjudag er spáð austan og suðaustan 8-15 m/s, skýjuðu með köflum og yfirleitt þurru, en hvassviðri eða stormi syðst á landinu og dálítilli vætu. Fer að lægja síðdegis. Hiti yfirleitt 0 til 5 stig, en sums staðar vægt frost í innsveitum. Þetta kemur fram í veðurspá Veðurstofu Íslands

mbl.is