Von á suðaustanstormi

Ferðir ökutækja sem taka á sig mikinn vind geta verið …
Ferðir ökutækja sem taka á sig mikinn vind geta verið varasamar í þeim aðstæðum sem verða á morgun. Kort/Veðurstofa Íslands

Vestanáttin var skammvin og nú er hæg breytileg átt á landinu. Í dag verður víða nokkuð kalt og er frost nú í morgunsárið mest 11 stig á Mörk á Landi en mjög víða er um 10 stiga frost. Mildara er við ströndina þar sem sjávarhitinn ræður meiru um lofthita í þessum aðstæðum, að því er fram kemur á vef Veðurstofu Íslands.

„Í kvöld gengur lægð sem nú er við Nýfundnaland nær landi með allhvassri eða hvassri suðaustanátt. Hvassast verður suðvestanlands, frá Eyjafjöllum í Borgarfjörð, 15-23 m/s á morgun og má búast við snörpum vindhviðum við fjöll. Ekki er útlit fyrir að lægi fyrr en á þriðjudag,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Fremur hæg breytileg átt og víða léttskýjað í dag en stöku él vestan til í fyrstu. Frost 2 til 10 stig, kaldast í innsveitum norðanlands. Vaxandi suðaustanátt seint í kvöld, og þykknar upp suðvestantil.

Suðaustan 15-23 m/s sunnan- og vestanlands á morgun og rigning með köflum en 8-15 og skýjað með köflum í öðrum landshlutum. Hiti 0 til 6 stig.

Á mánudag:
Suðaustan 8-15 m/s, skýjað með köflum og frost 0 til 7 stig, en 15-23 við suður- og vesturströndina og rigning með köflum og hiti 0 til 5 stig.

Á þriðjudag:
Minnkandi suðaustanátt, skýjað með köflum og yfirleitt þurrt. Hlýnar lítið eitt.

Á miðvikudag:
Austan og norðaustan 5-10, slydda eða snjókoma norðan- og austanlands en rigning við ströndina. Léttskýjað um landið suðvestanvert. Hiti kringum frostmark.

Á fimmtudag:
Austlæg átt, skýjað með köflum og þurrt að mestu. Hiti um og yfir frostmarki.

Á föstudag og laugardag:
Útlit fyrir suðaustlæga átt með dálítilli rigningu, einkum suðaustanlands, en þurrt og bjart norðanlands. Heldur hlýnandi.

mbl.is