Dómar Yfirréttarins verði gefnir út

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/​Hari

Forsætisnefnd Alþingis hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um að í tilefni af aldarafmæli Hæstaréttar á næsta ári verði forseta þingsins falið að ganga til samstarfs við Þjóðskjalasafn Íslands og Sögufélagið um útgáfu á dómum og skjölum Yfirréttarins á Íslandi og að Alþingi styðji útgáfuna fjárhagslega um 10 milljónir króna árlega næstu 10 ár. Yfirréttur var æðsti dómstóll landsins og starfaði á árunum 1563–1800.

„Lengi hafa verið uppi fyrirætlanir um útgáfu á dómum og skjölum Yfirréttarins og hófust áætlanir um slíka útgáfu árið 1991. Það var þó ekki fyrr en árið 2011 sem fyrsta bindið af dómum Yfirréttarins kom út og stóð Alþingi fyrir þeirri útgáfu í samstarfi við Sögufélag og Þjóðskjalasafn. Vel færi á að ljúka því verki í tilefni af 100 ára afmæli Hæstaréttar með því að Alþingi styddi útgáfuna á næstu 10 árum,“ segir í greinargerð með tillögunni.

Þar segir enn fremur að dómar Hæstaréttar Íslands hafa verið gefnir út frá upphafi stofnun hans árið 1920 og dóma Landsyfirréttar, forvera Hæstaréttar Íslands 1800–1920, hafi Sögufélagið gefið út. Þá hafi félagið í samvinnu við Þjóðskjalasafnið og með styrk frá Alþingi gefið út Alþingisbækur Íslands (1570–1800) sem séu að uppistöðu dómasafn Alþingis hins forna. Skjalasafn Yfirréttarins hafi hins vegar ekki varðveist á einum stað, sé ekki heildstætt og að hluta til sé tilviljun hvað hafi varðveist og hvað ekki.

„Skjöl réttarins eru nú varðveitt í nokkrum skjalasöfnum, aðallega í Þjóðskjalasafni Íslands, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Handritasafni Landsbókasafns – Háskólabókasafns.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert