Í farsímanum með tvö laus börn

Ljósmynd/Lögreglan

Fimmtíu hraðakstursmál komu á borð lögreglunnar á Suðurlandi í síðustu viku. Þar af var einn ökumaður kærður fyrir að aka um Mýrdalssand á 150 km hraða á klukkustund.

Annar ökumaður, á svipuðum slóðum, var kærður fyrir að aka of hratt miðað við aðstæður, en hann brunaði framhjá lögreglubifreið þar sem hún stóð í vegkanti með forgangsljósin kveikt eftir að lögreglumenn höfðu stöðvað fólksflutningabifreið sem þar var á ferð.

Einn ökumaður var kærður fyrir að aka á 81 km hraða innanbæjar á Selfossi og annar dró kerru á eftir bíl sínum sem var ljóslaus, óskráð og án skermunar fyrir hjól, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni.

Ellefu ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma án þess að nota handfrjálsan búnað. Einn þeirra var með tvö börn laus í bílnum og fékk einnig sekt fyrir þau brot.

Auk þess var einn kærður fyrir að nota ekki öryggisbelti og tveir ökumenn sem lögregla hafði afskipti af reyndust sviptir ökurétti.

Ellefu umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í síðustu viku en ekki er talið að alvarleg meiðsl hafi orðið á fólki.

mbl.is