Lögbrot fyrirtækja verði ekki liðin

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Hari

„Sú sem hér stendur hefur talað eins skýrt og hægt er. Íslenskt atvinnulíf og íslensk fyrirtæki eiga að fylgja lögum. Íslensk stjórnvöld munu ekki líða það að fyrirtæki brjóti lög,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Alþingi í dag vegna meintra lögbrota útgerðarfyrirtækisins Samherja í Namibíu.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði Katrínu út í ummæli sem breska dagblaðið Guardian hafði eftir Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra nýverið þess efnis að það vandamál sem væri undirliggjandi í málinu virtist vera spillt stjórnvöld í Namibíu. Eðlilegt væri að litið væri svo á að Bjarni hefði þar verið að tala fyrir ríkisstjórnina.

Katrín sagði málið fara í réttan farveg og að ekkert umburðarlyndi væri af hálfu íslenskra stjórnvalda gagnvart lögbrotum, hvort sem um brot á lögum um mútugreiðslur, á lögum um peningaþvætti eða á lögum um skattsvik og skattundanskot væri að ræða. „Af minni hálfu er það algjörlega ljóst, og ég tala fyrir hönd ríkisstjórnarinnar allrar í þessu máli: Lögbrot verða ekki liðin. Það verður sömuleiðis farið yfir lagarammann, hvort einhverjar ástæður séu til úrbóta.“

Ræddu um stöðu Kristjáns Þórs Júlíussonar

Fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar gerðu Samherjamálið að umtalsefni sínu. Halldóra Mogensen og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmenn Pírata, ræddu símtal Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við Þorstein Má Baldvinsson, sem stigið hefur til hliðar sem forstjóri Samherja, og hvaða skilaboð það sendi að hann hefði haft samband við Þorstein og spurt hvernig Samherji ætlaði að bregðast við málinu.

Halldóra beindi orðum sínum til Katrínar og Þórhildur til Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra. Svöruðu ráðherrarnir því til að það væri hvers ráðherra að meta eigin hæfi samkvæmt íslenskum lögum og að Kristján Þór hefði ákveðið að stíga til hliðar í tengslum við umfjöllun um Samherjamálið vegna vinatengsla sinna við Þorstein jafnvel þótt honum bæri engin lagaleg skylda til þess.

mbl.is

Bloggað um fréttina