Kosið verði um framkvæmdir í Elliðaárdal

Frá Elliðaárdal.
Frá Elliðaárdal. mbl.is/Kristinn Magnússon

Minnihlutinn í Borgarstjórn hefur sameinast um tillögu þess efnis að efnt verði til almennrar atkvæðagreiðslu á meðal íbúa Reykjavíkur um deiliskipulag við Stekkjarbakka Þ73, sem er innan Elliðaársvæðisins, „svo borgarbúum verði gert kleift að koma á framfæri afstöðu sinni til gróðurhvelfingar og atvinnureksturs á reitnum.“

Lagt er til að allir sem kosningarétt hafa í sveitarfélaginu verði kjörgengir og enn fremur að atkvæðagreiðslan verði rafræn og Þjóðskrá Íslands falið að annast hana. Flokkarnir sem standa að tillögunni eru Sjálfstæðisflokkurinn, Sósíalistaflokkur Íslands, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins. Til stendur að leggja tillöguna fram í borgarstjórn á morgun.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Málið er mjög umdeilt. Íbúar á svæðinu og Hollvinasamtök Elliðaárdalsins hafa gagnrýnt þessi áform mjög sem og stofnanir eins og Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun. Þetta er umhverfismál og ætti að mínu mati að vera yfir pólitíska flokkadrætti hafið. Þetta er grænasti reiturinn í Reykjavík. Ef eitthvað mál ætti að setja í íbúakosningu þá ætti það einmitt að vera svona mál,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn í samtali við mbl.is. Bendir hann á að Píratar hafi talað mikið um það fyrir síðustu kosningar að íbúar hefðu áhrif á skipulagsmál en þegar á reyndi virtist minni áhugi á því.

Styður íbúakosningar en ekki í þessu máli

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borgarstjórn, segir í samtali við mbl.is að þó hún sé hlynnt íbúalýðræði hafi hún ekki séð rök fyrir því að íbúakosning eigi við um umrætt mál frekar en einhver önnur.

„Auðvitað styð ég íbúakosningu ef það kemur formleg krafa frá íbúum um það. Það eru lög sem kveða á um að ef ákveðið hlutfall kjósenda biður um atkvæðagreiðslu þá á að verða við því. En lýðræðið á að vera á forsendum almennings, ekki á forsendum flokka sem nenna ekki einu sinni að búa til tillögur sem standast faglegar formkröfur,“ segir Dóra Björt. Þá segist hún ekki nenna að elta „ódýr áróðurstrix“ Sjálfstæðisflokksins sem vilji slá um sig sem lýðræðisflokkur.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borgarstjórn. mbl.is/Hari

Innt eftir því hvort hún telji umrætt mál ekki vera þess eðlis að ástæða væri til að leyfa íbúum í Reykjavík að segja skoðun sína á því svarar Dóra Björt ítrekar hún að mál verði að vera á forsendum almennings en ekki einstakra stjórnmálaflokka.

Spurð hvort frumkvæðið þurfi að koma frá íbúum og hvort eitthvað sé því til fyrirstöðu að meirihlutinn leggi fram eigin tillögu sem sé þá vandaðri að hans mati svarar Dóra Björt:

„Það þarf að vera gagnsær rammi í kringum það hvernig lýðræðið á að virka og hvernig íbúakosningar virka.“ Sakar hún Sjálfstæðisflokkinn um að misnota íbúalýðræði með því að leggja til kosningar um einstök mál „til þess að valda fjaðrafoki.“

mbl.is