Sveitarfélög haldi aftur af hækkunum

Bendir ASÍ á að nauðsynlegt sé að lækka álagningarhlutfall sveitarfélaga …
Bendir ASÍ á að nauðsynlegt sé að lækka álagningarhlutfall sveitarfélaga eigi hækkanir á fasteignagjöldum að vera innan við 2,5%. mbl.is/Ómar Óskarsson

Nú þegar fjárhagsáætlanagerð sveitarfélaga stendur yfir minnir Alþýðusamband Íslands á yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem gefin var út í tengslum við kjarasamninga síðastliðið vor, þar sem mælst var til þess að sveitarfélögin tækju þátt í að stuðla að verðstöðugleika með því að halda aftur af hækkunum á gjaldskrám.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ASÍ þar sem sveitarfélög eru hvött til þess að standa við yfirlýsingar og treysta markmið kjarasamninga.

„Í yfirlýsingunni beindi Samband íslenskra sveitarfélaga þeim tilmælum til sveitarfélaganna að gjöld á þeirra vegum hækki ekki umfram 2,5% á árinu 2020, og minna ef verðbólga væri lægri, en yfirlýsingin vó þungt í heildarniðurstöðu kjarasamninga.“

Þá bendir ASÍ á að nauðsynlegt sé að lækka álagningarhlutfall sveitarfélaga eigi hækkanir á fasteignagjöldum að vera innan við 2,5%. Breytingar á fasteignamati hafi legið fyrir síðan í sumar og því ljóst hvernig fasteignaskattar muni hækka í hverju sveitarfélagi haldist álagningarhlutfall óbreytt. 

„Opinberum aðilum ber að sýna ábyrgð og taka þátt í því að viðhalda verðstöðugleika svo að markmið kjarasamninga um aukinn kaupmátt, lága verðbólgu og lægri vexti nái fram að ganga. Alþýðusambandið ætlast til þess að sveitastjórnir landsins axli þessa ábyrgð í yfirstandandi fjárhagsáætlanagerð og standi við gefnar yfirlýsingar gagnvart launafólki.“

Að lokum segir að ASÍ muni veita sveitarfélögum aðhald og fylgjast náið með gjaldskrárbreytingum á næstu vikum.

Tilkynning ASÍ í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert