500 milljónir í innviðauppbyggingu í Vogabyggð

Séð yfir Súðarvog sem tilheyrir Vogabyggð.
Séð yfir Súðarvog sem tilheyrir Vogabyggð. mbl.is/Arnþór Birkisson

Um leið og grunnskólabörn flytja í Vogabyggð verður þeim boðinn skólaakstur í Vogaskóla til að tryggja öryggi þeirra í umferðinni. Þau þurfa að fara yfir Sæbraut til að sækja skólann. Engin grunnskólabörn hafa flutt í hverfið og því er ekki þörf á skólaakstri enn sem komið er en það gæti breyst í vetur, að sögn Sigurborgar Óskar Haraldsdóttur formanni Skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar. 

Betur fór en á horfðist nýlega þegar tvö börn voru á leið yfir gangbraut á Sæbrautinni við Vogabyggð þegar bíll ók næstum á þær en þetta mátti ekki tæpara standa, að sögn vitnis. Bent hefur verið á að þörf er á að stuðla að auknu öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda yfir Sæbraut við Tranavog og Snekkjuvog.

Unnið er að því að rýna gatnamótin til að finna heppilega lausn. Á skipulagi er gert ráð fyrir göngubrú yfir Sæ­braut við Trana­vog og Snekkju­vog og einnig er verið að rýna hugmyndir um að setja Sæbraut í stokk en „það myndi bæta öryggi gangandi sem best,“ segir Sigurborg. 

Gert er ráð fyrir 500 milljónum króna í innviðauppbyggingu á ári til Vogabyggðar sem fara meðal annars í gatnagerð, lýsingu og fleiri þætti sem auka öryggi gangandi vegfarenda, að sögn Sigurborgar.   

„Þegar við horfum á þessi gatnamót eins og þau eru í dag eru ýmsir þættir sem hægt væri að grípa til sem taka ekki eins langan tíma og þessi stóru atriði, göngubrú og Sæbraut í stokk. Það er t.d. að lækka leyfilegan hámarkshraða, auka eftirlit með hraðamyndavélum, breyta legu hjóla- og göngustíga, bæta lýsingu sérstaklega við þveranir gatna,“ segir Sigurborg. 

Ekki liggur fyrir í hvaða framkvæmdir verður farið til að auka umferðaröryggi á þessum slóðum því rýnivinna er enn í fullum gangi. Hins vegar ætti það að skýrast innan nokkurra vikna, að sögn Sigurborgar sem tekur fram að lögð er áhersla á að vinna þessi mál hratt og vel.     

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags- og umhverfisráðs.
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags- og umhverfisráðs. mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert