„Áframhaldandi plástrapólitík“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. mbl.is/Hari

„Þetta er áframhaldandi plástrapólitík þessarar ríkisstjórnar sem ætlar augljóslega að glutra niður góðu tækifæri til þess að ráðast í grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og því koma auðlindum í þjóðareign með stjórnarskrárákvæði.“

Þetta segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir Pírati um aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að efla traust á atvinnulífinu sem voru kynntar fyrr í dag.

Mjög óeðlilegt að Kristján Þór taki þátt

Hún segir einnig mjög óeðlilegt að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hafi setið ríkisstjórnarfundinn þar sem aðgerðirnar voru samþykktar, þrátt fyrir að bæði hann og forsætisráðherra hefðu lýst því yfir að hann hafi sagt sig frá öllum málum tengdum Samherja. „Annað hvort skilur ríkisstjórnin ekki hvað það þýðir að segja sig frá málum eða hún var bara að plata.“

Kristján Þór Júlíusson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vafasamt fyrirtæki

Þórhildur Sunna segist einnig hafa áhyggjur af því að utanríkisráðuneytið fylgist með umfjöllun erlendis um Samherjamálið og hafi undirbúið viðbrögð þar vegna hugsanlegs orðsporshnekkis án þess að fram komi fram hvernig eigi að framkvæma viðbrögðin. „Mér líst ekki á það ef ríkisstjórnin grípur til þess ráðs að ráða almannatengslafyrirtækið Burson-Marsteller til að hafa áhrif á umfjöllun fjölmiðla erlendis eins og hún gerði í uppreist æru-málinu til þess að vernda orðspor þáverandi forsætisráðherra,“ greinir hún frá og segir fyrirtækið vafasamt og stundi það að verja olíurisa fyrir fjölmiðlaumfjöllun.

Ríkisstjórn Íslands á ríkisráðsfundi á Bessastöðum fyrr á árinu. mbl.is/Árni Sæberg

„Svo sakna ég þess að sjá einhver viðbrögð við þeim þætti í umfjöllun Stundarinnar um þetta mál að fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands hafi verið mögulega notuð til að þvætta eitthvað af þessum illa fengnu peningum frá Namibíu til Íslands.“

Einnig minnist Þórhildur Sunna á að frumvarp forsætisráðherra um vernd uppljóstrara í sinni núverandi mynd myndi ekki nægja til að vernda uppljóstrarann í Samherjamálinu. Það sé athugunarvert.

Hún segir líka einkennilegt í ljósi umfangs Samherjamálsins að einungis standi til að veita tímabundið fjármagn til eftirlitsaðila í stað þess að styrkja þá verulega þannig að þeir hafi nægt fjármagn og mannafla til að tryggja að svona mál komi aldrei aftur upp á Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina