„Úr því að ég gat það þá getur þú það“

Vigdís Finnborgadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, ræðir við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra …
Vigdís Finnborgadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, ræðir við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alþjóðleg menningarverðlaun Vigdísar Finnbogadóttur verða veitt í fyrsta skipti á næsta ári. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greindi frá þessu í opnunarávarpi sínu á Heimsþingi kvenleiðtoga sem hófst í Hörpu í morgun en Vigdís er verndari þingsins. 

„Mér þykir afskaplega vænt um þessi tíðindi. Ég veit ekki hvernig ég á að þakka fyrir það,“ segir Vigdís í samtali við mbl.is. 

15. apríl næstkomandi verður Vigdís 90 ára og 29. júní sama ár verða liðin 40 ár frá sögulegu forsetakjöri hennar. Ríkisstjórn Íslands, Háskóli Íslands og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum munu halda upp á þessi tímamót, meðal annars með hátíðarsamkomu þar sem verðlaunin verða veitt í fyrsta skipti. Verðlaunin verða veitt einstaklingum sem hafa skarað fram úr með störfum sínum í þágu menningar og þá einkum tungumála.

Ríkisstjórnin samþykkti í lok október að veita alls tíu milljónir króna í verkefnið, annars vegar fimm milljónir til afmælishátíðar og hins vegar fimm milljónir til verðlaunanna. 

Engin sem hefur gert jafn mikið fyrir Ísland

Hanna Birna Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Wom­en Political Lea­ders, sem stendur að heimsþinginu í Hörpu sem hófst í dag, segir verðlaunin mikinn virðingarvott við Vigdísi. „Hún á auðvitað skilið svo miklu meira. En það er verið að viðurkenna og tryggja það að hennar arfleifð lifi með okkur og verði áfram til staðar. Ég held að það sé engin manneskja sem hefur gert jafn mikið fyrir Ísland. Sagan um jafnrétti, sagan um kvenfrelsi og sagan um sterkar konur situr svolítið í henni og hún axlar það dag eftir og dag og ár eftir ár.“

Vigdís er sem fyrr segir verndari Heimsþings kvenleiðtoga og er hún hreykin af því. „Ég held að það hafi meiri þýðingu fyrir aðra heldur en mig, en ég varð náttúrulega fyrst til að vera kjörin kvenforseti í lýðræðislegum kosningum í heiminum, og ég vissi það ekki sjálf,“ segir Vigdís og hlær. 

Konurnar sem sækja þingið eru á ýmsum aldri og hitti Vigdís yngsta þátttakandann, Bana al-Abed, 10 ára sýrlenska stúlku, í dag. Bana öðlaðist heimsfrægð með færslum sínum á Twitter frá Aleppo þegar umsátrið um borgina stóð sem hæst. „Við heilsuðumst og settumst andartak gaman og ég spurði: „Finnst þér ekki gaman?“ Hvað segir maður við 10 ára stelpu annað en það hvort henni finnist ekki gaman að vera í kvennahópi og hún jánkaði því, að sjálfsögðu,“ segir Vigdís. 

Viðurkenning á greind og getu kvenna

Jafnréttisbaráttunni er síður en svo lokið og segir Vigdís erfitt að nefna eitt atriði umfram annað sem standi upp úr í baráttunni síðustu áratugi. Viðurkenning á greind og getu kvenna og viðurkenning á jafnréttismálum víða í heiminum stendur þó upp úr að mati Vigdísar. Þá nefnir hún að fyrirmyndir skipti einnig máli, en það orð þekktist ekki í hennar uppeldi. 

„En núna finnst mér mjög vænt um það þegar stelpur koma til mín og segja að ég sé þeim fyrirmynd. Þá segi ég alltaf við þær: „Úr því að ég gat það þá getur þú það“. Ég hef lengi sagt það að ef ég hafi gert nokkuð í lífinu þá hef ég gefið konum og sérstaklega ungum stúlkum trú á sjálfa sig.“

Þegar blaðamaður náði tali af Vigdísi í dag var hún að undirbúa sig fyrir pallborðsumræður sem hófust klukkan 20 á viðeigandi stað; í Veröld — húsi Vigdísar. Ásamt henni taka Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Julia Gillard fyrrum forsætisráðherra Ástralíu, Dalia Grybauskaitė fyrrum forseti Litháen og Irma Erlingsdóttir, dósent við Háskóla Íslands þátt í umræðunum. Viðburðurinn er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Vigdísarstofnunar og Council of Women World Leaders, sem Vigdís tók einmitt þátt í að stofna árið 1998 og var kjörin fyrsti formaður ráðsins. 

„Ég er að fara í spariblússuna mína svo að ég standi mig,“ sagði Vigdís. Umræðuefnið er konur, tungumál og menning, málefni þar sem frú Vigdís Finnbogadóttur hefur án efa ýmislegt til málanna að leggja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert