Ekki vongóður um niðurstöðu fyrir föstudag

Félagsdómur er í sama húsnæði og Landsréttur.
Félagsdómur er í sama húsnæði og Landsréttur. mbl.is/Hallur Már

Stefna Blaðamanna­fé­lags­ins á hend­ur Sam­tök­um at­vinnu­lífs­ins verður þingfest fyrir Félagsdómi kl. 14:45 í dag. Blaðamanna­fé­lagið stefndi Árvakri, út­gáfu­fé­lagi Morg­un­blaðsins og mbl.is, fyr­ir Fé­lags­dóm vegna meintra verk­falls­brota.

Eftir þingfestinguna á eftir að tímasetja málflutning og flytja málið. Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélagsins, segist ekki vongóður um að dómur eigi eftir að falla fyrir næsta föstudag. Þá eru fyrirhugaðar þriðju verkfallsaðgerðir Blaðamannafélagsins ef samningar nást ekki fyrir þann tíma. Alla jafna fá sambærileg mál flýtimeðferð hjá Félagsdómi.

Félagsdómur var óstarfandi frá síðustu mánaðamótum þegar skip­un­ar­tími dóm­ara við Fé­lags­dóm rann út. Alls sitja fimm dóm­ar­ar í Fé­lags­dómi og hefur fé­lags- og barna­málaráðherra skipað einn af dómur­un­um og er hann nú fullskipaður. 

Fundur hjá ríkissáttasemjara í kjaradeilu BÍ og SA verður í dag kl. 13:30. 

Ef ekki nást samningar milli SA og BÍ fyrir næsta föstudag nær þriðja vinnustöðvunin til blaða- og frétta­manna í Blaðamanna­fé­lagi Íslands sem starfa á mbl.is, vis­ir.is og fretta­bla­did.is, auk töku­manna og ljós­mynd­ara hjá Árvakri, Rík­is­út­varp­inu, Sýn og Torgi. Verkfallið nær til tólf klukkustunda frá 10-22. 

Tekið skal fram að flest­ir blaðamenn á rit­stjórn mbl.is og Morg­un­blaðsins eru fé­lag­ar í Blaðamanna­fé­lagi Íslands.

mbl.is