Fær bætur eftir að hún tókst á loft í Reynisfjöru

Frá Reynisfjöru.
Frá Reynisfjöru. mbl.is/Jónas Erlendsson

Bresk kona fékk viðurkenndan rétt til skaðabóta úr hendi Sterna Travel ehf. samkvæmt dómsorði Héraðsdóms Reykjavíkur í síðustu viku vegna helmings tjóns sem hún varð fyrir í slysi við Reynisfjöru í október 2014 á vegum fyrirtækisins.

Konan var í rútuferð á vegum Sternu um Suðurland þar sem farþegum var ekið að Reynisfjöru en hætt hafði verið við að aka að Sólheimajökli vegna veðurs.

Farþegum var hleypt út í Reynisfjöru en á bakaleið í rútuna tókst konan á loft í einni vindhviðu, kastaðist á steina og slasaðist við það á öxl. Síðan þá hefur konan glímt við axlarmein.

Konan segir að óveður hafi geisað á svæðinu og óforsvaranlegt hafi verið að hleypa ferðamönnum út úr rútunni til að skoða sig um í Reynisfjöru. Sterna segir hins vegar engar viðvaranir tengdar veðri hafa verið á þeirri leið sem átti að fara, hvorki daginn áður né að morgni ferðadags.

Hins vegar hafi veðurspá gert ráð fyrir nokkru hvassviðri sem myndi koma að landinu að kvöldi ferðadags, eða um kl. 18.30, en gert hafi verið ráð fyrir að ferðinni yrði lokið fyrir þann tíma.

Fyrirtækið dregur í efa að fall konunnar hafi orsakast af vindhviðunni einni saman og hægt sé að rekja slysið að einhverju leyti til gáleysis hennar.

Gekk á með miklum vindhviðum

Fram kemur í niðurstöðu dómsins að gögn frá Veðurstofu Íslands sýni að á þeim tíma sem konan var við Reynisfjöru, laust upp úr hádegi, gekk á með miklum vindhviðum. Bæði leiðsögumaður og rútubílstjóri báru fyrir dómi að þau hefðu orðið þess vör fljótlega eftir komu á bílastæðið við Reynisfjöru að það gekk á með sterkum vindhviðum.

Dómurinn segir að konunni og samferðafólki hennar hafi ekki getað dulist að veður var orðið varasamt. Í ljósi þess sem konan hlaut sjálf að skynja um veðurfarið segir dómurinn að ekki verði á það fallist að hún hafi sem erlendur ferðamaður mátt reiða sig alfarið á þekkingu starfsmanna stefnda á staðháttum og íslensku veðurfari. 

Dómi þyki því hæfilegt að hún beri sjálf helming tjóns síns og að Sterna Travel greiði henni skaðabætur vegna hins helmingsins. Auk þess er Sterna gert að greiða konunni hálfa milljón í málskostnað. 

mbl.is