Hæstiréttur tekur fyrir kynferðisbrotamál

Sjaldgæft er að Hæstiréttur taki til meðferðar sakamál eftir að ...
Sjaldgæft er að Hæstiréttur taki til meðferðar sakamál eftir að hlutverki dómsins var breytt í byrjun síðasta árs. mbl.is/Golli

Hæstiréttur hefur fallist á beiðni um að taka til meðferðar mál karlmanns sem dæmdur var í Landsrétti fyrir að brjóta gegn fyrrverandi eiginkonu sinni og syni sínum. Hæstiréttur mun ekki taka mat um sakfellingu til endurskoðunar, heldur ákvörðun um viðurlög sem ákæruvaldið taldi of væg.

Karlmaðurinn var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir tvö kynferðisbrot gegn fyrrverandi eiginkonu sinni og blygðunarsemis- og barnaverndarbrot gagnvart syni sínum, auk þess sem hann braut gegn nálgunarbanni og lögum um fjarskipti með því að koma fyrir eftirfararbúnaði og GPS-staðsetningartæki í bíl konunnar.

Sjaldgæft er að Hæstiréttur taki til meðferðar sakamál eftir að hlutverki dómsins var breytt í byrjun síðasta árs. Samkvæmt Fréttablaðinu hafa réttinum borist 31 beiðni um áfrýjunarleyfi í sakamálum það sem af er ári. Er þetta fyrsta slíka beiðnin sem samþykkt er.

Ákæruvaldið og karlmaðurinn sóttu bæði um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar, en ákæruvaldið taldi refsingu of væga og ekki í samræmi við dómaframkvæmd, og maðurinn telur dóm Landsréttar rangan og að sök hans hafi ekki verið sönnuð.

Fram kemur í málskotsbeiðninni sem Hæstiréttur tók fyrir að niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggi að hluta á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar mannsins, vitna og brotaþola og verður það mat ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti. Hins vegar sé fallist á beiðni ákæruvaldsins um að flytja málið um beitingu réttarreglna sem voru til grundvallar refsingu mannsins. Var dómur mannsins í Landsrétti mildaður um eitt ár frá dómi héraðsdóms og taldi ákæruvaldið það ekki í samræmi við dómaframkvæmd og þá hafi heldur ekki verið litið til sakarferils mannsins honum til refsiþyngingar.

mbl.is