Íslenska ríkið sýknað af bótakröfum Zúista

Ágúst Arnar Ágústsson, skráður forstöðumaður Zuism.
Ágúst Arnar Ágústsson, skráður forstöðumaður Zuism. Ljósmynd/Aðsend

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað íslenska ríkið af kröfu Zuism trúfélags um dráttarvexti af sóknargjöldum og skaðabætur.

Hafði trúfélagið farið fram á dráttarvexti vegna sóknargjalda sem haldið var eftir á meðan ráðið var fram úr því hver væri í forsvari fyrir trúfélagið á árunum 2016 til 2017. Þá var farið fram á skaðabætur vegna ólögmætra aðgerða eða aðgerðaleysis íslenska ríkisins gagnvart trúfélaginu.

Ekki vitað um neina starfsemi á vegum félagsins

Upphaf málsins má rekja til þess að Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra, sem þá sá um skráningu trúfélaga, birti auglýsingu í Lögbirtingarblaðinu í apríl 2015 þar sem fram kom að ekki væri vitað um neina starfsemi á vegum félagsins og hvorki væri kunnugt um hver væri forstöðumaður þess né hverjir skipuðu stjórn þess, eftir að fyrrverandi forstöðumaður félagsins hafði samband við sýslumann og tjáði að hann væri hættur.

Í kjölfar auglýsingarinnar gaf Ísak Andri Ólafsson sig fram við sýslumann og var í kjölfarið skráður forstöðumaður félagsins 1. júní 2015, eftir að hann hafði sent sýslumanni gögn þar að lútandi. 

Trúfélagið Zuism hafði svo samband við Sýslumann í desember sama ár og krafðist þess að skráning forstöðumanns yrði leiðrétt þannig að Ágúst Arnar Ágústsson yrði skráður forstöðumaður. 

Tekist á um greiðslu sóknargjalda innan félagsins

Í febrúar 2016 sendi Ísak Andri Fjársýslu ríkisins bréf þar sem óskað var eftir því að greiðslu sóknargjalda til trúfélagsins yrði frestað þar til greitt hefði verið úr málum rekstrarfélags þess, þar sem stjórnarmenn tengdust ekki lengur stjórn hins viðurkennda trúfélags. Viku síðar barst Fjársýslu ríkisins tölvupóstur frá trúfélaginu þar sem þess var krafist að sóknargjöld yrðu greidd, en var erindinu hafnað þar sem skráður forstöðumaður hafði óskað eftir því að þau yrðu ekki greidd.

Með stjórnsýslukæru 16. febrúar 2016 kærði trúfélagið ákvörðun sýslumannsins á Norðurlandi eystra um að skrá Ísak Andra forstöðumann stefnanda. Var þess krafist að ákvörðunin yrði felld úr gildi og Ágúst Arnar Ágústsson yrði skráður forstöðumaður. Með úrskurði ráðuneytisins í janúar 2017 var ákvörðun sýslumanns um að skrá Ísak Andra sem forstöðumann felld úr gildi, en kröfu stefnanda um að skrá Ágúst Arnar sem forstöðumann var vísað frá ráðuneytinu og til umfjöllunar hjá sýslumanni. Það var svo loks hinn 28. september 2017 sem sýslumaður féllst á að Ágúst Arnar Ágústsson yrði skráður sem forstöðumaður félagsins. 

Trúfélagið hafi vanrækt tilkynningaskyldu

Í úrskurði héraðsdóms segir að þegar stefnandi hafi vanrækt að tilkynna sýslumanni um nýjan forstöðumann eftir starfslok Ólafs Helga Þorgrímssonar, eins og honum bar að gera, verði að fallast á það með stefnda að fullt tilefni hafi verið til þess stöðva greiðslur til stefnanda eins og gert var frá ársbyrjun 2016.

Þá hafi verið væri fullt tilefni til að kanna sérstaklega hvort Zuism uppfyllti enn skilyrði til að vera skráð trúfélag og að greiðsla útistandandi sóknargjalda hafi verið innt af hendi í beinu framhaldi af því að viðurkenning sýslumanns á skráðum forstöðumanni lá fyrir.

„Þótt taka megi undir það með stefnanda að skoðun sýslumanns hafi dregist mjög á langinn er til þess að líta að atvik sem vörðuðu opinberar yfirlýsingar um tilgang stefnanda gáfu tilefni til að efast um réttmæti skráningar stefnanda sem trúfélags. Þá er einnig ljóst að upplýsingar sem sýslumanni bárust um rannsókn á meintum fjársvikum fyrirsvarsmanna stefnanda gáfu einnig tilefni til sérstakrar varfærni af hálfu sýslumanns. Samkvæmt þessu verður talið að rétt hafi verið af hálfu stefnda 9 að halda aftur af greiðslum til stefnanda.“

„Sömuleiðis er ekki fallist á að stefnanda hafi tekist að sanna að stefndi eða starfsmenn stefnda hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi við afgreiðslu málefna stefnanda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert