Karp og ljóðlestur um Korpu í borgarstjórn

Skúli Helgason (t.h.) mælti fyrir tillögunni í borgarstjórn og fékk …
Skúli Helgason (t.h.) mælti fyrir tillögunni í borgarstjórn og fékk síðan lesið um sig ljóð. mbl.is/Hari

Tillaga um breytingu á skóla- og frístundastarfi í norðanverðum Grafarvogi er nú rædd á fundi borgarstjórnar, en tillagan felur í sér að skólastarf í Kelduskóla Korpu verði aflagt, þar til fjöldi barna í 1.-7. bekk í Staðahverfi hafi náð 150 nemendum. Tillagan hefur verið umdeild og meðal annars mótmæltu foreldrar þessum fyrirætlunum í síðustu viku með því að keyra hring eftir hring um hverfið. Minnihlutinn hefur lagt fram tillögu um að málinu verði frestað.

Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður skóla- og frístundaráðs borgarinnar, kynnti tillöguna og sagði að mikil og róttæk breyting hefði orðið á nemendafjölda í hverfinu undanfarinn áratug og það gæfi borginni tilefni til að bregðast við með þessum breytingum.

„Það eru sterkar tilfinningar í þessu máli, það er eðlilegt, og við höfum fullan skilning á því að fólk hafi áhyggjur þegar breytingar á grunnþjónustu eru annars vegar. Þetta er sannarlega ekki verkefni sem neinn nálgast af léttúð, en við teljum að í ljósi þróunar nemendafjölda síðastliðinn áratug, þar sem nemendum hefur fækkað um rúmlega ¾, þá sé það skylda okkar sem kjörinna fulltrúa bregðast við, að snúa vörn í sókn og leggja grunn að sjálfbærum skóla- og frístundastofnunum sem uppfylla kröfur 21. aldarinnar um áherslu á alhliða menntun og velferð nemenda,“ sagði Skúli.

Rökin fyrir þessari breytingu eru líka fjárhagsleg, en Skúli kynnti í ræðu sinni að kostnaður við hvern nemanda í Kelduskóla Korpu væri tvöfalt meiri en við kostnaðurinn við meðal grunnskólanemanda í Reykjavík. „Það er munur sem er erfitt fyrir okkur sem berum ábyrgð á málaflokknum að verja,“ sagði Skúli.

Las upp ljóð eftir ungan nemanda

Umræður í borgarstjórn Reykjavíkur eiga það til að vera langar, ef málin eru umdeild, eins og þetta mál er. Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, las upp ljóð eftir ungan dreng. Ljóðið er samið um „ástandið sem er í norðanverðum Grafarvogi“ og þær ákvarðanir sem verið að taka í skólamálum þar. Valgerður sagði drenginn hafa óskað eftir því að hún myndi lesa ljóðið upp í borgarstjórn.

Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, mælti fyrir breytingatillögu.
Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, mælti fyrir breytingatillögu.

Skúli fúli

Gamli skólinn minn í Korpu.
brátt fer á Sorpu.
Skúli vill krakkana færa,
hann er okkur að æra.
Við mörg þurfum að fara,
allt til þess að spara.
Meðan við reynum að læra,
við myndum hann helst vilja kæra.
Það í mig fýkur,
því gamninu Í Kelduskóla lýkur.

Að ljóðaupplestrinum loknum mælti Valgerður fyrir breytingatillögu sem allir borgarfulltrúar í minnihluta borgarstjórnar hafa komið sér saman um. Þar er lagt til að ákvörðun um breytingar á skólastarfi í norðanverðum Grafarvogi og lokun Kelduskóla Korpu verði frestað, „vegna þeirra fjölda athugasemda og mótmæla sem þessi ákvörðun hefur mætt.“

Töluverður fjöldi fólks er í fundarsal borgarstjórnar í dag til þess að fylgjast með umræðum um þetta mál og var tillögu minnihlutans tekið með miklu lófaklappi. Þurfti forseti borgarstjórnar, Pawel Bartoszek, að minna á að slíkt tíðkaðist ekki og ef lófatak myndi endurtaka sig neyddist hann til þess að láta rýma salinn.

„Forseti tekur fram að hann er glaður að sjá svo marga fylgjast með fundi borgarstjórnar og hlýða á það sem hér fer fram, en það tíðkast ekki að klappa eða vera með framíköll á fundum borgarstjórnar, þannig ef þetta verður endurtekið neyðist forseti til að rýma salinn fyrir áhorfendum,“ sagði Pawel.

„Lifi lýðræðið,“ heyrðist þá úr salnum og því svaraði Pawel á þann veg að þetta væri allt samkvæmt samþykktum og hefðum borgarstjórnar. Hægt er að fylgjast með fundi borgarstjórnar í beinni útsendingu hér að neðan.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert