Miðflokkurinn segir fordæmið varhugavert

Frá Alþingi. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mælti fyrir frumvarpi um greiðslu …
Frá Alþingi. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mælti fyrir frumvarpi um greiðslu bóta vegna sýknudóms Hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu í október. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar telur efni frumvarps sem á að stuðla að sáttum vegna bóta í Guðmundar- og Geirfinnsmálum geta greitt fyrir sátt að því marki sem unnt er. Miðflokkurinn er því ósammála og segir fordæmi frumvarpsins varhugavert.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði frumvarpið fram á Alþingi í byrjun október. Hún sagðist þá hlíta mjög skýrum ráðum þeirra sem fóru með umboð ríkisins í því verkefni að ná sam­komu­lagi við alla aðila í máli sak­born­ing­anna í Guðmund­ar- og Geirfinns­mál­inu sem voru sýknaðir í end­urupp­töku máls­ins fyr­ir ári. 

Fram kemur í nefndarálitinu að lagt er til að ráðherra verði heimilað að greiða bætur til aðila án þess að þeir fyrirgeri rétti sínum til að bera kröfur undir dómstóla.

Anna Kolbrún Árnadóttir, fulltrúi Miðflokksins í nefndinni, skilar séráliti en hún telur að efni frumvarpsins gangi gegn stjórnarskrárbundinni þrískiptingu ríkisvaldsins, þar sem löggjafarvaldið gangið með því inn á verksvið dómsvaldsins.

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, skilaði séráliti.
Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, skilaði séráliti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Minnihlutinn getur ekki tekið undir að hér sé um nauðsynlega lagasetningu að ræða til þess að unnt sé að greiða bætur. Þrátt fyrir sérstöðu málsins er hér um að ræða mál sem Hæstiréttur hefur nú þegar haft til umfjöllunar og leiddi til sýknu aðila vegna tiltekinna atriða. Það fer því betur á því að dómstólar skeri úr um bótaskyldu og eftir atvikum fjárhæð bóta í málinu líkt og hefðbundið er,“ segir í áliti hennar.

Þar segir enn fremur að ef frumvarpið verði samþykkt skapi það fordæmi sem gæti haft varhugaverð áhrif á önnur mál þar sem einstaklingar eru sviptir frelsi sínu með óréttmætum hætti eða ranglega sakfelldir. Auk þess séu bætur sem kveðið er á um í frumvarpinu og ákvörðun fjárhæðar þeirra samkvæmt greinagerð í ósamræmi við það sem áður hafi þekkst.

mbl.is