Sjúkraflutningafólk slasaðist við störf sín

Frá vettvangi í morgun.
Frá vettvangi í morgun. Ljósmynd/Landsbjörg

Tveir sjúkraflutningamenn á Suðurlandi, karl og kona, slösuðust við aðgerðir við Hafurshól undir Eyjafjöllum í morgun, er öflug vindhviða feykti þeim um koll. Þau gengust bæði undir læknisrannsóknir í dag, segir Jón Hermannsson hjá Björgunarsveitinni Dagrenningu á Hvolsvelli.

Jón var þarna á staðnum í morgun, en þar hafði rúta fokið út af veginum og út í Hofsá með 23 um borð. Enginn sem var um borð í rútunni slasaðist við óhappið og voru farþegar fluttir í fjöldahjálparmiðstöð Rauða krossins, þangað sem önnur rúta sótti þá.

Það var því bara sjúkraflutningafólkið sem sakaði. Samkvæmt Jóni er karlmaðurinn með djúpt sár á legg og sprungu í sköflungi og konan tognuð. „Þau voru bæði með hjálm er þetta gerðist og hjálmarnir eru báðir ónýtir,“ segir Jón og því ljóst að byltur þeirra hafa verið nokkuð harðar, en sjúkraflutningafólkið stóð uppi á þjóðveginum er vindhviðan skyndilega reið yfir.

mbl.is