Spice fannst í rafrettum unglinga

mbl.is/Hari

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði á dögunum afskipti af unglingum og fannst í rafrettum sem þeir voru með þeim svokallað Spice, efni sem telst til nýmyndaðra kannabínóíða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.

„Þetta er mikið áhyggjuefni og því vill Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vekja athygli á málinu og hvetja forráðamenn barna og unglinga til að vera á varðbergi. Efnið er nánast lyktarlaust, en á meðal skammtímaáhrifa þess eru mikil gleði og ánægja. Aukinn hjartsláttur, hár blóðþrýstingur, ofskynjanir, ofsóknaræði, kvíðaköst og árásargirni eru hins vegar á meðal alvarlega aukaverkana af notkun efnisins.“

Full ástæða sé til að hafa áhyggjur af þessari þróun mála, en notkun efnisins sé mikið vandamál víða annars staðar. Hegðun unglinganna vakti athygli lögreglumanna og var lagt hald á rafrettur þeirra. Veipvökinn úr þeim var í kjölfarið rannsakaður á rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði og reyndist hann innhalda Spice auk nikótíns. Málið er unnið í samráði við barnaverndaryfirvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert