Vísar á bug gagnrýni á Kristján Þór

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Alþingi.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra vísar á bug gagnrýni á að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hafi setið ríkisstjórnarfund um aðgerðir til að auka traust á atvinnulífinu og að hann taki þátt í viðbrögðum vegna Samherjamálsins.

„Ráðherra hefur talað skýrt um það að hann mun víkja sæti ef um er að ræða einhverjar stjórnvaldsákvarðanir sem tengjast þessu fyrirtæki sökum sinna tengsla en þetta snýst í raun og veru um almennar leikreglur fiskveiðistjórnunarkerfisins og á við um alla,“ segir Katrín, spurð út í gagnrýni Loga Más Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, og Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur Pírata.

Katrín segist hafa ákveðið, strax eftir umfjöllunina um Samherja í síðustu viku, að óska eftir því að öll ráðuneyti tækju saman allt sem gert hefði verið, hvað væri í pípunum og hvað þau teldu mikilvægt að ráðast í. Niðurstaðan hafi birst í tilkynningunni um aðgerðirnar sem var send fjölmiðlum.

Kristján Þór Júlíusson.
Kristján Þór Júlíusson. mbl.is/Hari

Margar aðgerðir síðasta eitt og hálft ár

„Það er mjög margt sem við höfum verið að gera, bæði í tengslum við peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem hefur verið verkefnið undanfarið eitt og hálft ár. Það er líka búið að ráðast í aðgerðir hvað varðar herta löggjöf í skattamálum, hvað varðar skattaundanskot og fleira,“ segir hún og bætir við að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hafi kynnt hugmyndir sínar um að lagðar verði auknar skyldur á stór fyrirtæki sem ekki eru skráð í Kauphöll um að skila inn upplýsingum. Það rími við það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi bent á.  

Þorsteinn Már Baldvinsson, einn eigenda Samherja.
Þorsteinn Már Baldvinsson, einn eigenda Samherja. Ljósmynd/Þórhalldur Jónsson

Sjávarútvegsráðherra biður um tillögur

Einnig nefnir hún að sjávarútvegsráðherra hafi boðað að hann myndi tryggja að það kæmu tillögur frá nefnd sem hann skipaði fyrr á þessu ári um túlkun ákvæða fiskveiðistjórnunarlaga um tengda aðila hvað varðar hámarks aflahlutdeild. Einnig ætlar hann að beita sér fyrir því á vettvangi FAO [Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna] að gerð verði úttekt á fiskveiðum fyrirtækjum sem starfa á alþjóðavettvangi.

Katrín minnist einnig á ýmis upplýsingamál sem hún hefur verið að vinna og að í gær hafi verið sett í samráðsgáttina frumvarp um varnir gegn hagsmunaárekstrum í stjórnsýslunni. „Margt af þessu er í farvegi en annað er eitthvað sem mun auðvitað taka tíma.“

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Árni Sæberg

Margt til bóta undanfarinn áratug

Spurð út í kröfuna um aukið gagnsæi segir hún skipta máli að stjórnvöld og stjórnsýslan setji kröfur á eigin hendur og að einnig verði unnið að auknu gagnsæi þegar kemur að atvinnulífinu.

„Ég tel að mjög margt hafi verið gert til bóta þegar kemur að laga- og regluverki um atvinnulífið á Íslandi undanfarinn áratug en það er eðlilegt að við förum yfir það núna og skoðum hvar sé hægt að gera frekari úrbætur og það sem við kynntum í dag er hluti af því.“ 

mbl.is