Aðstoða flóttafólk við stofnun matarvagna

Verkefnið er m.a. unnið í samstarfi við Reykavík Street Food.
Verkefnið er m.a. unnið í samstarfi við Reykavík Street Food. Haraldur Jónasson/Hari

„Undanfarið hefur orðið mikil aukning af fólki af erlendum uppruna sem kemur hingað til að setjast að, sérstaklega flóttafólki, og þegar ráðgjafar okkar spyrja hvað það langi að gera er svarið oft að það langi að opna veitingastað eða matarvagn. Og hvað gerum við til að koma til móts við það?“

Þetta segir Edda Ólafsdóttir, verkefnastjóri hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

Kynningarfundur verður í Gerðubergi í Breiðholti síðdegis í dag, þar sem áhugi innflytjenda og flóttafólks á því að fá aðstoð við að koma á fót matarvagni með mat frá þeirra heimalandi verður kannaður.

Að sögn Eddu er verkefnið enn á hugmyndastigi, en það er unnið í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Reykjavík Street Food og er Edda sérstaklega ánægð með hversu vel þau hafi tekið í hugmyndina að samstarfi.

„Hugmyndin er að vera með ferli þar sem fólk getur sótt um að taka þátt og það verður svo eins konar samkeppni þar sem bestu réttirnir verða valdir úr. Hugsunin er að fjórar til fimm hugmyndir fái brautargengi og við myndum þá leiðbeina fólki um opnun matarvagns,“ segir Edda. Þá sé verkefnið liður í því að gera gera matarauð innflytjenda og flóttafólks sýnilegri sambærilegt og við sjáum í nágrannalöndum okkar.

„Við erum að leita að einstaklinga, fjölskyldur, vini, viðskiptafélaga, sem eiga kannski sína uppáhaldsuppskrift og vilja koma henni á framfæri.“

Um 130 manns hafa boðað komu sína á kynningarfundinn ef marka má viðbrögðin við viðburðinum á Facebook, sem kallast Global Street Food Opportunity, auk þess sem tæplega 500 hafa lýst áhuga. Hægt er að kynna sér viðburðinn nánar á Facebook.

mbl.is