Báðir aðilar að gera allt sem þeir geta

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands. mbl.is/Hari

„Það er óhætt að fullyrða að aðilar báðu megin séu að gera allt sem þeir geta til þess að finna flöt á því að lenda þessari deilu. Báðir aðilar eru að leggja sig fram.“

Þetta segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, í samtali við mbl.is, en fundi í húsakynnum ríkissáttasemjara í kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins lauk núna skömmum fyrir klukkan 22:00 en hann hófst klukkan 13:30 í dag.

„Þetta er búið að vera mjög flókið og höldum þessari vinnu áfram á morgun. Það er óljóst enn hverju þessi vinna skilar. Það skýrist betur á morgun,“ segir Hjálmar en gert er ráð fyrir að viðsemjendur komi aftur saman til fundar klukkan 13:30 á morgun.

Kemur til greina að fresta aðgerðum

Spurður hvort til greina komi að fresta boðuðum verkfallsaðgerðum á föstudaginn, þegar gert er ráð fyrir verkfalli blaðamanna sem aðild eiga að Blaðamannafélaginu á netmiðlum mbl.is, Ríkisútvarpsins, Vísir.is og Fréttablaðsins segir Hjálmar:

„Það er klárt mál að ef við sjáum til lands og erum að semja þá frestast aðgerðir. En til þess þurfum við að sjá til lands. Það er bara þannig. Þetta skýrist á morgun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert