Blekkingar áttu við um aðra aðila

Síldarvinnslan.
Síldarvinnslan. mbl.is/Sigurður Bogi

Vegna fréttar sinnar síðastliðinn föstudag um að Síldarvinnslan hefði beðið Samherja um ráð um hvernig blekkja ætti veiðiheimildir út úr Grænlendingum, hefur Fréttablaðið áréttað að ekki hafi verið átt við að Síldarvinnslan eða samstarfsmaður og –félög fyrirtækisins á Grænlandi hafi áformað að blekkja þarlend stjórnvöld. Þetta hafi átt við um aðra aðila.

Vísað er í útskýringar Henriks Leth, samstarfsmanns Síldarvinnslunnar á Grænlandi og stjórnarformanns Polar Seafood, í grænlenska blaðinu Sermitsiaq um að á þessum tíma hafi margir útlenskir aðilar með Grænlendinga sem leppa reynt að ná aflaheimildum í vaxandi markílveiðum Grænlendinga.

Síldarvinnslan sendi frá sér tilkynningu eftir að fréttin birtist í Fréttablaðinu á föstudaginn. Þar kom fram að fréttin væri algjörlega röng. Framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar greindi frá því í samtali við mbl.is sama dag að snúið hefði verið út úr tölvupósti sem fréttin var unnin upp úr og að aldrei hefði staðið til að blekkja neinn.

mbl.is