Bryndís verður ráðuneytisstjóri

Bryndís Hlöðversdóttir.
Bryndís Hlöðversdóttir. mbl.is/​Hari

Ráðuneytisstjóraskipti verða í forsætisráðuneytinu frá og með 1. janúar þegar Ragnhildur Arnljótsdóttir ráðuneytisstjóri tekur við nýju embætti í utanríkisþjónustunni.

Ragnhildur mun undirbúa opnun nýrrar fastanefndar Íslands hjá Evrópuráðinu í Strassborg og taka við embætti þar 1. júní nk. Ragnhildur mun auk hefðbundins fyrirsvars og skyldustarfa á þessum vettvangi byggja upp starfsemi fastanefndarinnar í Strassborg og vinna að undirbúningi formennsku Íslands í Evrópuráðinu sem hefst árið 2022.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Ragnhildur Arnljótsdóttir.
Ragnhildur Arnljótsdóttir. mbl.is/Heiddi

Við embætti ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu tekur Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari með vísan til heimildar í 36. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Bryndís er lögfræðingur að mennt og hefur gegnt embætti ríkissáttasemjara frá árinu 2015. Áður var hún starfsmannastjóri Landspítala — háskólasjúkrahúss og rektor við Háskólann á Bifröst.

Þá gegndi Bryndís þingmennsku fyrir Alþýðubandalagið og Samfylkinguna á árunum 1995 til 2005. Hún var áður lögfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands og starfsmaður nefndar í dómsmálaráðuneytinu um aðskilnað umboðsvalds og dómsvalds í héraði, segir enn fremur. 


„Forsætisráðuneytið vill við þessi tímamót þakka Ragnhildi fyrir afar vel unnin störf og ekki síst hennar framlag í tengslum við ýmsar stjórnsýsluumbætur og uppbyggingu á krefjandi tímum. Ragnhildur hefur gegnt embætti ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu í rúman áratug en var áður ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneytinu frá árinu 2004 og fulltrúi í sendiráðinu Brussel frá 2002 til 2004. Hún starfaði í heilbrigðisráðuneytinu frá árinu 1995 og á Alþingi frá árinu 1993. Ráðherrar sem Ragnhildur hefur unnið með í þremur ráðuneytum eru á annan tuginn,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina