Hverfandi líkur á samkomulagi í dag

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands. mbl.is/Hari

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, segir að enn beri mikið í milli í kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins. Næsti fundur hefst hjá ríkissáttasemjara klukkan 13.30 í dag.

„Við róum að því öllum árum að finna lausn á þessari kjaradeilu. Hún er búin að vera mjög erfið. Miðað við hvernig hefur gengið get ég ekki beint verið bjartsýnn en sannarlega erum við að reyna að feta þennan veg og ég trúi því að báðir aðilar séu heilshugar í því,“ segir Hjálmar, spurður hvort hann sé vongóður fyrir fundinn.

„Það ber enn mikið í milli, því miður, en meðan við erum að tala saman er von til þess að við finnum sameiginlega lausn á þessu. Sannarlega er samninganefnd Blaðamannafélagsins að leggja sig fram um það.“

Aðspurður segir hann að hverfandi líkur séu á því að samkomulag náist í dag. „Það er bara það mikið sem við eigum eftir en tíminn styttist klárlega. Það er vinnustöðvun á föstudaginn og við erum meðvituð um það báðum megin.“

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að svo lengi sem aðilar séu að tala saman hljóti þeir að vera að færast nær hvor öðrum.

„Við erum að vinna áfram samtal sem við spunnum áfram í gær. Við sjáum hverju fram vindur í þessari viku,“ segir hann.

Tekið skal fram að flest­ir blaðamenn á rit­stjórn mbl.is og Morg­un­blaðsins eru fé­lag­ar í Blaðamanna­fé­lagi Íslands.

mbl.is