Lagðist ítrekað til svefns

Lögreglan handtók mann í Austurbænum (hverfi 108) í gærkvöldi en ítrekuð afskipti voru höfð af manninum um kvöldið þar sem hann fór inn í hús eða hótel og lagðist til svefns. Maðurinn er vistaður í fangageymslu lögreglu sökum ástands.

Tilkynnt var um innbrot á nokkrum stöðum í gærkvöldi og nótt á höfuðborgarsvæðinu. Brotist var inn á heimili í Garðabæ en þar hafði verið farið inn um glugga og verðmætum stolið. Brotist var inn í fyrirtæki í miðbænum en þar var rúða brotin og farið inn. Ekki er vitað hverju var stolið.

Kona í annarlegu ástandi var handtekin í Austurbænum (hverfi 105) í nótt en hún hafði ruðst inn í íbúð hjá ókunnugum. Konan er vistuð sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

Tilkynnt var til lögreglu um innbrot á heimili í hverfi 101 í nótt. Öryggisvörður sá tvo menn hlaupa af vettvangi. Ekki er vitað hverju var stolið, að því er segir í dagbók lögreglunnar.

Í gærkvöldi var tilkynnt um umferðaróhapp á Reykjanesbraut til lögreglu en ökumaður bifreiðarinnar missti annað framdekkið undan bifreið sinni. Ökumaðurinn hafði verið að láta setja nagladekkin undir. Bifreiðin var flutt með dráttarbifreið aftur á dekkjaverkstæðið og ökumaðurinn aðstoðaður heim.

Tveir ökumenn voru stöðvaðir fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur í gærkvöldi. Annar hefur ítrekað verið stöðvaður fyrir akstur sviptur ökuréttindum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert