Ræddu Samherjamálið „bæði grunnt og vítt“

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mætir á fund atvinnuveganefndar …
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mætir á fund atvinnuveganefndar í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Við vorum bara að ræða þessa stöðu sem uppi er, bæði grunnt og vítt. Mér fannst mjög gott að fá tækifæri til þess að mæta fyrir nefndina. Þetta var tækifæri bæði fyrir nefndarmenn til þess að spyrja og mig þá að svara. Þannig að í heildina tekið fannst mér þetta bara fínt eins og við segjum fyrir norðan.“

Þetta sagði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í samtali við mbl.is eftir fund atvinnuveganefndar Alþingis sem fram fór í dag þar sem rætt var um Samherjamálið og áhrif þess á íslenskan sjávarútveg. Kristján var kallaður fyrir nefndina að ósk Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, þingmanns Vinstrihreyfingarinnar — græns framboðs.

„Við ræddum þær tillögur sem ríkisstjórnin kynnti í gær og ég fór yfir þær að mestu leyti og ræddi ýmsa aðra þætti sem tengjast mínu ráðuneyti. Það voru engar sérstakar aðgerðir boðaðar til viðbótar því sem ríkisstjórnin hefur gert,“ sagði ráðherrann og bætti við:

„Það má vel vera að nefndin ræði þetta áfram. Ég er ekki á þeim vettvangi en mér finnst fullkomlega eðlilegt að þingið kalli framkvæmdavaldið fyrir sig þegar svona er og ræði með málefnalegum hætti um þá stöðu sem uppi er og þau málefni sem undir eru.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert