Tekur fyrir mál varðandi ummæli saksóknara

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Golli

Hæstiréttur hefur fallist á að veita áfrýjunarleyfi í máli Gísla Reynissonar gegn íslenska ríkinu en málið tengist Aserta-málinu svonefnda.

Fram kemur í ákvörðun réttarins að líta verði svo á að virtum gögnum málsins að dómur í því geti haft fordæmisgildi um þau atriði sem leyfisbeiðnin er reist á. Gísla höfðu áður verið dæmdar 2,5 milljónir króna í bætur í Landsrétti vegna rannsóknaraðgerða og vegna þess að málið dróst á langinn.

Hins vegar féllst Landsréttur ekki á bótagreiðslur vegna ummæla saksóknara þess efnis að ákæruvaldið teldi sekt manna í Aserta-málinu sannaða á blaðamannafundi og í blaðaviðtali né vegna atvinnutjóns.

Gísli byggði leyfisbeiðnina á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Bæði hvað varðar mörk leyfilegrar umfjöllunar lögreglu og ákæruvalds í sakamálum og við hvaða aðstæður megi dæma bætur annars vegar vegna atvinnutjóns og hins vegar vegna kyrrsetningar eða haldlagningar á reiðufé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert