Tveir próflausir með bíl í togi

Lögregla tók af mönnunum skýrslu vegna málsins og að því ...
Lögregla tók af mönnunum skýrslu vegna málsins og að því loknu héldu mennirnir sína leið gangandi. mbl.is/Eggert

Síðdegis í dag stöðvaði lögreglan bifreið sem var með aðra bifreið í eftirdragi í Árbæjarhverfi í Reykjavík, þar sem lögreglumönnum fannst akstur bifreiðanna „eitthvað sérkennilegur“. Við athugun lögreglu kom í ljós að hvorugur ökumannanna hafði öðlast ökuréttindi.

Lögregla tók af mönnunum skýrslu vegna málsins og að því loknu héldu mennirnir sína leið gangandi, en bifreiðunum var komið fyrir í næstu lausu bílastæðum. Þetta kemur fram í yfirliti frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu yfir verkefni dagsins.

Einn að kasta grjóti, annar með leiðindi

Lögregla greinir frá því að hún hafi farið í tvö verkefni í miðbænum í dag, þar sem kvartað var undan hegðun manna. Einn var sagður ölvaður og með leiðindi við fólk, en hinn sagður vera að kasta grjóti í vegfarendur í miðborginni. Báðir voru mennirnir þó farnir þegar lögregla kom að athuga málið.

Lögreglu var einnig gert viðvart um vinnuslys í póstnúmeri 105 skömmu fyrir hádegi, en engar frekari upplýsingar liggja fyrir um slysið.

Síðdegis var lögreglu svo tilkynnt um tvö umferðaróhöpp í Seljahverfi í Reykjavík.

mbl.is