Einföld undirskrift bjargar mannslífum

Leikkonan Nanna Kristín Magnúsdóttir setti viðburðinn formlega.
Leikkonan Nanna Kristín Magnúsdóttir setti viðburðinn formlega. mbl.is/Árni Sæberg

Stærsta mannréttindaherferð í heimi, Þitt nafn bjargar lífi, hófst í anddyri bílakjallara Hörpu nú síðdegis en Íslandsdeild Amnesty International stendur fyrir herferðinni hér á landi. Ætlunin er að skapa víðtæka vitundarvakningu meðal almennings á Íslandi um hvernig má með einföldum en áhrifaríkum hætti hafa jákvæð áhrif á líf þolenda mannréttindabrota og dreifa boðskapnum.

Um er að ræða árlega alþjóðlega herferð þar sem markmiðið er að bjarga mannslífum. Um allan heim koma þúsundir einstaklinga saman og setja nafn sitt á áskoranir til stjórnvalda landa sem brjóta mannréttindi. Í ár einblína samtökin á ungt fólk, undir tuttugu og fimm ára aldri víða um heim sem verða fyrir mannréttindabrotum.

Dansarinn Andrean Sigurgeirsson í anddyri bílakjallara Hörpu í dag.
Dansarinn Andrean Sigurgeirsson í anddyri bílakjallara Hörpu í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Fram kemur í tilkynningu frá Amnesty að gestum hafi verið boðið að skrifa undir tíu áríðandi mál barna og ungs fólks undir 25 ára aldri sem sæta mannréttindabrotum víðs vegar um heiminn en nánar má lesa um þau á vefsíðu Amnesty.

Í gagnvirkri ljósainnsetningu birtist nafn þess sem skrifaði undir um leið. Á sama tíma bauðst fólki að stíga inn í aðstæður mannréttindabrota og hægt var að stöðva þau á táknrænan hátt með skuggamynd.

Ætlunin var að þátttakendur fengju sterka tilfinningu fyrir því hverju einföld undirskrift fær áorkað í baráttunni fyrir betri heimi og hvernig samstöðumátturinn skiptir öllu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert