Grunaður um umfangsmikil brot

Lögreglan segir að maðurinn hafi verið ósamvinnuþýður, gefið ótrúverðugar skýringar ...
Lögreglan segir að maðurinn hafi verið ósamvinnuþýður, gefið ótrúverðugar skýringar og flækt málið enn frekar. mbl.is/Eggert

Landsréttur staðfesti fyrr í þessum mánuði farbannsúrskurð Héraðsdóms Reykjaness yfir pakistönskum manni sem er grunaður um man­sal hér á landi, skjala­brot, fjár­svik og pen­ingaþvætti þar sem hann nýti sér nauðung er­lendra rík­is­borg­ara í hagnaðarskyni.

Skal maðurinn sæta farbanni til 18. desember. 

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms, sem Landsréttur staðfesti 11. nóvember, að rannsókn málsins, þar sem maðurinn hafi stöðu sakbornings, sé verulega umfangsmikil og flækjustig málsins hátt og eigi fáa sína líka.

Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að alls hafi 15 einstaklingar stöðu sakbornings í málinu, búið sé að leggja hald á 130 muni, 127 skýrslur hafi verið gerðar og skjöl málsins séu 188. Lögreglustjórinn telur að maðurinn sé lykilsakborningur í málinu en maðurinn er m.a. grunaður um skjalafals, brot gegn frjálsræði manna og auðgunarbrot.

Þá segir í greinargerðinni, að til marks um flækjustig málsins hafi maðurinn setið í gæsluvarðhaldi í nærri 12 vikur án þess að upplýsa lögreglu um rétt nafn. Þegar lögregla hafi borið upp hið rétta nafn hafi maðurinn gefið „fjarstæðukenndan framburð um hin breyttu auðkenni og nýjan fæðingardag. Alls hafi sóknaraðili gefið upp þrjá mismunandi fæðingardaga við yfirvöld á Íslandi.“

Tekið er fram að maðurinn sé grunaður um umfangsmikil brot á lögum um útlendinga, en svo virðist sem allmargir umsækjendur af ónefndu þjóðerni hafi hagnýtt sér kerfið um alþjóðlega vernd, farið með ferðaskilríki og persónuleg gögn að ónefndum stað í Reykjavík og haldið svo á lögreglustöð, jafnvel einhverjum dögum síðar, í því skyni að sækja um alþjóðlega vernd. Þá án allra skilríkja, farsíma og farangurs. Í einhverjum tilvikum hafi fólkið notað önnur nöfn en það beri og gefið upp mismunandi fæðingardaga. Þá segir að lögreglan rannsaki nú aðild mannsins að öllum þeim kennitölum sem fengnar hafi verið með ólögmætum hætti og skipulögðu smygli á fólki hingað til lands. 

Tekið er fram, að rannsókn málsins sé langt komin en ekki lokið. Lögregla hafi reynt eftir bestu getu að hraða rannsókn málsins en ekki hefur tekist að vinna hraðar. Rökstuddur grunur sé um að maðurinn stundi umfangsmikil og skipulögð brot yfir landamæri og að hann eigi sér samverka- og hlutdeildarmenn. Þau brot sem lögregla rannsaki kunni að varða allt að 12 ára fangelsi.

mbl.is