Jón Atli og Kári í hópi áhrifamestu vísindamanna

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, eru á nýjum lista á vegum hins virta greiningarfyrirtækis Clarivate Analytics yfir áhrifamestu vísindamenn heims sem var birtur fyrr í vikunni.

Samkvæmt tilkynningu frá Háskóla Íslands hefur Clarivate Analytics undanfarin fimm ár birt slíkan lista og en hann nær til þess eins prósents vísindamanna innan hverrar fræðigreinar sem mest er vitnað til í vísindagreinum sem birtast í alþjóðlegum vísindatímaritum.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/​Hari

Listinn byggist á gögnum úr gagnabankanum Web of Science og í ár er tekið mið af tilvitnunum á árabilinu 2008-2018. Listinn í ár nær til um 6.200 vísindamanna á 21 fræðasviði en þess má geta að í hópnum eru 23 Nóbelsverðlaunahafar.

Lista Clarivate Analytics yfir áhrifamestu vísindamenn heims má nálgast hér.

mbl.is