Kvíðalyf 345% dýrari hér á landi

Samanburður 50 landa sýnir að lyfjaverð hér á landi er …
Samanburður 50 landa sýnir að lyfjaverð hér á landi er hátt. mbl.is/Thinkstock.com

Ísland er meðal þeirra landa þar sem lyfjaverð er hæst. Þetta sýnir ný alþjóðleg úttekt þar sem lyfjaverð í 50 löndum var borið saman og þar er Ísland í 10 sæti. Verð á samheitalyfjum hér á landi er um 628% hærra en meðaltal í þessum löndum og kvíðalyf eru rúmum 345% dýrari hér á landi en að meðaltali í löndunum í könnuninni.

Lyf við liðagigt og meltingartruflunum eru þau lyf sem ódýrust eru hér á landi af þeim lyfjum sem voru í úttektinni, þau eru hátt í 9% ódýrari hér en meðaltalið sýndi.

Úttektin heitir 2019 Medicine Price Index og er gerð af breska heilsufyrirtækinu Medbelle. Kannað var verð á 13 algengum lyfjum í sömu skammtastærð óháð greiðsluþátttöku hins opinbera í lyfjakostnaði og skoðað var verð á bæði frumlyfjum og samheitalyfjum.

Til dæmis er Zithromax, sem er algengt sýklalyf 299% dýrari hér á landi en að meðaltali í löndunum 50 og getnaðarvarnarpilla fyrir konur er hér um 22% dýrari.

Viagra kostar 85% meira

Stinningarlyfið Viagra um 85% dýrara hér en meðaltalið, flogaveikilyf eru hér um 149% dýrari en að meðaltali og astmalyf eru um 275% dýrari hér á landi. Þá er verð á geðlyfinu Prozac um 85% hærra hér á landi, lyfið Viread sem sjúklingar með alnæmi og lifrarbólgu B nota er 131% dýrari hér á landi og Xanax, sem er róandi og kvíðastillandi lyf, er 345% dýrari hér á landi en að meðaltali í löndunum 50 sem voru í úttektinni.

Kannað var verð annars vegar á frumlyfjum og hins vegar á samheitalyfjum. Tæplega 28% munur reyndist á verði frumlyfja hér á landi og í hinum löndunum, en hann var talsvert meiri á samheitalyfjunum þar sem hann var 627,54%.

Ísland næstdýrast af Norðurlöndunum

Samkvæmt þessari könnun er lyfjaverð á Íslandi næsthæst á Norðurlöndunum. Dýrustu lyfin eru í Danmörku, þar sem lyfjaverð var tæpum 80% hærra en meðaltalið í könnuninni og í Finnlandi var verðið tæplega 29% hærra. Í Noregi var lyfjaverð 5,26% lægra en meðaltalið sýndi og í Svíþjóð var það 23,19% lægra.

Dýrustu lyfin eru í Bandaríkjunum þar sem lyfin, sem borin voru saman í könnunni, reyndust vera hátt í 307% dýrari en þau voru að meðaltali í hinum löndunum í könnuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert