Nýi og gamli Herjólfur bilaðir við bryggju í Vestmannaeyjum

Rekstur nýja Herjólfs eða Herjólfs IV hefur ekki gengið áfallalaust …
Rekstur nýja Herjólfs eða Herjólfs IV hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig. mbl.is/Sigurður Bogi

Áætlunarferð nýja Herjólfs sem átti að sigla klukkan hálftíu frá Vestmannaeyjum til Landeyjahafnar í morgun var aflýst vegna bilunar í hliðarskrúfu ferjunnar. Gamli Herjólfur bilaði í gærkvöldi og liggja því báðir Herjólfar bilaðir við bryggjuna í Vestmannaeyjum.

Þetta staðfestir Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdarstjóri Herjólfs, í samtali við mbl.is. Eyjar.net greindu fyrst frá málinu.

„Það kom upp smá bilun í Herjólfi þriðja í gær (gamla Herjólfi). Það fór headpakkning í annarri vélinni. Svo vorum við með smá svona bilun í Herjólfi nýja sem tengdist tölvubúnaðinum. Það voru meldingar að koma í tölvukerfinu eftir vinnu við innsetningu og tengingu fyrir rafmagnið,“ útskýrir Guðbjartur og bætir við:

„Við löguðum þær meldingar í gær og gátum því sent hann af stað í staðinn fyrir gamla Herjólf en síðan fengum við meldingu um hliðarskrúfuna þannig við felldum niður ferðina klukkan hálftíu og erum að lesa gegnum kerfið og reyna ná fyrir þessa bilun.“

Var að koma inn í höfn þegar hliðarskrúfan bilaði

Bilunin í hliðarskrúfu nýja Herjólfs kom upp þegar hann var að koma inn í höfnina í Vestmannaeyjum. Guðbjartur segir þó að engin hætta hafi verið á ferðum. „Eðli málsins samkvæmt þá vilja menn hafa framdrifsbúnað skipsins allan í lagi og auðvitað er þetta óþægilegt en það var engin hætta. Menn voru alveg klárir á því hvernig þeir ætluðu að stýra skipinu.“

Stefnt er að því að bilanaleit og lagfæring í tölvukerfi nýja Herjólfs klárist fljótlega og hann geti siglt frá Eyjum klukkan tólf og að siglingaráætlun haldist eftir það. Bilunin í gamla Herjólfi er ekki stórvægileg og talið er að náist að koma honum í gang í dag og hann gæti jafnvel leyst nýja Herjólf af hólmi síðdegis ef á þarf að halda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert