Slitnaði upp úr hjá SA og BÍ

Samninganefnd Blaðamannafélags Íslands hjá sáttasemjara.
Samninganefnd Blaðamannafélags Íslands hjá sáttasemjara. mbl.is/​Hari

„Það er enginn samningsvilji, því miður, og það verður verkfall á morgun. Ég sé það bara þannig að þessi fyrirtæki séu bandingjar SA og séu í einhverju lífskjarasamningsmambói sem er með ólíkindum,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélagsins, í samtali við mbl.is.

Upp úr viðræðum Blaðamannafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins slitnaði á níunda tímanum í kvöld eftir langar viðræður. 

Að sögn Hjálmars tók Blaðamannafélagið tilboð SA og lagði fram með breytingum, sem ekki hafi verið tekið. Á morgun verði fundur í höfuðstöðvum Blaðamannafélagsins, þar sem rædd verður atkvæðagreiðsla vegna frekari verkfallsaðgerða í desember.

Stefnir í harðari átök

„Við lögðum okkur fram og miðað við það hvað er lítið sem út af ber og við erum langt innan þessa lífskjarasamnings er með ólíkindum að við séum að fara í svona hörð átök. Það er óskiljanlegt.“

Hjálmar segir ekki verið að bjóða Blaðamannafélaginu sömu kjarabætur og öðrum hafi verið boðið. „Við teygðum okkur eins langt og við mögulega gátum. Eingreiðsla vegna liðins tíma er ekki inni í myndinni, og annað eftir því, það er eins og þeir geri í því að sprengja vonina um að ná þessum samning í loft upp. Það er ekki hægt að orða það öðruvísi.“

Leitt að skuli steyta á steini gagnvart BÍ

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, staðfestir að slitnað hafi upp úr viðræðunum. Hann segir því miður enn of langt á milli aðila. 

„Það sem skiptir máli í þessu er að við höfum ekki náð saman enn. Það er ekki búið að boða nýjan fund og þar við situr að sinni, því miður.“

„Ég get sagt þér að við höfum samið við nánast allan almenna vinnumarkaðinn, 97% okkar viðsemjenda. Þetta ferli hefur gengið vel hingað til og leitt að það skuli steyta á skeri gagnvart Blaðamannafélaginu.“

Þriðja vinnu­stöðvun­ BÍ, sem nær til blaða- og frétta­manna í Blaðamanna­fé­lagi Íslands sem starfa á mbl.is, vis­ir.is og fretta­bla­did.is, auk töku­manna og ljós­mynd­ara hjá Árvakri, Rík­is­út­varp­inu, Sýn og Torgi, fer fram á morgun, föstudag, og stendur í tólf klukkustundir frá kl. 10 til 22.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Tekið skal fram að flest­ir blaðamenn á rit­stjórn mbl.is og Morg­un­blaðsins eru fé­lag­ar í Blaðamanna­fé­lagi Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina