Engar bætur eftir fall í ferju

Frá Viðey.
Frá Viðey. mbl.is/Brynjar Gauti

Landsréttur staðfesti í dag sýknudóm yfir tryggingafélagi hvalaskoðunarfyrirtækisins Eldingar af bótakröfu konu sem slasaðist um borð í Viðeyjarferju fyrirtækisins. Konan var farþegi í ferjunni vegna skemmtiferðar fjölmiðlafyrirtækisins 365.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði tryggingafélagið af bótakröfunni í byrjun árs en konan krafðist bóta eftir að hún féll þegar slinkur kom skyndilega á ferjuna rétt áður en hún lagðist að bryggju í Reykjavíkurhöfn.

Konan byggði málatilbúnað sinn á því að slysið væri rakið til saknæmrar háttsemi skipstjóra ferjunnar við stjórn hennar auk þess sem öryggisbúnaði um borð hafi verið áfátt.

Tryggingafélagið sagði hins vegar að konan hefði ekki sýnt fram á að rekja mætti slysið til yfirsjónar, gáleysis eða saknæmrar háttsemi áhafnar ferjunnar.

Fram kemur í niðurstöðu Landsréttar að það sé ósannað hvað olli því að hnykkur koma á ferjuna. Var að öðru leyti vísað í dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem sagði meðal annars að hreyfing á ferju væri eðlileg við aðstæður þar sem hún væri í þann mund að leggja að bryggju.

Var trygg­inga­fé­lagið því sýknað af kröfu kon­unn­ar, en rétt þótti að máls­kostnaður milli aðila félli niður í ljósi þess hvernig málið væri vaxið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert