Græddi á netinu og sveik skattinn

Maðurinn hlaut alls 8 milljón króna sekt vegna vanrækslu á …
Maðurinn hlaut alls 8 milljón króna sekt vegna vanrækslu á að telja fram til skatts í skattframtölum sínum tekjur af veðmálum á erlendum veðmálasíðum vegna þriggja tekjuára. AFP

Yfirskattanefnd hefur með úrskurði gert manni að greiða sekt vegna vanrækslu á að telja fram til skatts í skattframtölum sínum tekjur af veðmálum á erlendum veðmálasíðum vegna þriggja tekjuára. Þarf maðurinn að greiða alls 5,1 milljón kr. til ríkissjóðs og 3,1 milljón kr. til bæjarsjóðs Kópavogs.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir m.a. að maðurinn hafi „að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattyfirvöldum skil á efnislega röngum skattframtölum“ með því að vanframtelja tekjur sínar sem til komu vegna veðmála, tæpar 13,5 milljónir kr.

Leiddi þetta til ákvörðunar um lægri tekjuskatts- og útsvarsstofn hans en vera bar gjaldárin 2015, 2016 og 2017, vegna tekjuáranna 2014, 2015 og 2016 og þar með til ákvörðunar lægri tekjuskatts og útsvars. Þá er sektin sögð „hæfilega ákveðin“ í úrskurðinum.

Deilt var um berjasorbet

Í öðru máli var deilt um tollflokkun á berjasorbet. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að varan innhéldi ýmis bragð- og aukaefni og væri í skýringarriti Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO) sérstaklega talin með frostpinnum sem dæmi um vöru sem félli undir vörulið 2105 í tollskrá. Var fallist á með tollstjóra að varan félli undir þann vörulið, nánar tiltekið tollskrárnúmer 2105.0099 sem annar ís til manneldis. Kröfu kæranda í þessu máli var því vísað frá.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert